Fótbolti

Sveindís: „Það er ekki annað hægt en að bara mæta 100 prósent og ætla sér sigur“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Sveindís Jane Jónsdóttir átti fína spretti í kvöld. Hún segir að það hafi bara vantað herslumuninn hjá liðinu í dag til að koma boltanum yfir línuna.
Sveindís Jane Jónsdóttir átti fína spretti í kvöld. Hún segir að það hafi bara vantað herslumuninn hjá liðinu í dag til að koma boltanum yfir línuna. Vísir/Hulda Margrét

Sveindís Jane Jónsdóttir, leikmaður íslenska kvennalandsliðsins, var að vonum svekkt eftir 2-0 tap liðsins gegn Hollendingum á Laugardalsvelli í kvöld. Hún segir þó að hún hafi séð margt jákvætt í leik íslenska liðsins.

„Leikurinn var bara ágætur, við sóttum vel á þær og áttum mjög marga sénsa,“ sagði Sveindís eftir leik.

„Mér fannst við geta skorað nokkur mörk eins og þær, en það gekk ekki í dag, því miður.“

Þorsteinn Halldórrson, þjálfari liðsins, sagði eftir leik að stelpurnar hafi mætt hugrakkar til leiks. Sveindís tók undir það.

„Jú, alveg 100 prósent. Við ætluðum bara að vinna leikinn þannig að við mættum þannig stemmdar í leikinn. Við gerðum okkar allra besta og fengum mörg færi til að geta skorað Þær fá líka nokkur færi en við gerðum okkar allra besta.“

Holland er með eitt sterkasta landslið heims, en Sveindís segir að það að liðið hafi mætt í leikinn með það að markmiði að vinna sýni hversu langt þær eru komnar.

„Það er ekki annað hægt en að bara mæta 100 prósent og ætla sér sigur. Við mættum bara þannig og þessar hollensku stelpur eru ótrúlega sterkar þannig að ég held að við getum alveg gengið sáttar frá þrátt fyrir að hafa tapað.“

Sveindís segir enn fremur að það hafi verið ótrúlega gaman að glíma við hollensku stelpurnar, en það hafi bara vantað herslumuninn til að koma boltanum yfir línuna.

„Þetta var bara ótrúlega gaman. Það er svo ógeðslega gaman að mæta svona sterkum leikmönnum. Þannig að mér fannst þetta bara mjög gaman.“

„Það vantaði bara aðeins upp á í dag. Við fengum alveg ótrúlega mörg færi til þess að klára þetta, en það gekk ekki upp í dag.“

„Það er mjög mikið jákvætt. Við vörðumst vel og fengum ekkert rosalega mörg færi á okkur. Þetta voru skot fyrir utan teig, þannig að þær bara hittu hann vel.“

Klippa: Viðtal við Sveindísi Jane



Fleiri fréttir

Sjá meira


×