Erlent

Skotinn til bana eftir að hafa krafið við­skipta­vin um að bera grímu

Atli Ísleifsson skrifar
Frá vettvangi í Idar-Oberstein í Rínarlandi-Pfalz.
Frá vettvangi í Idar-Oberstein í Rínarlandi-Pfalz. Getty

Tvítugur starfsmaður bensínstöðvar í þýska bænum Idar-Oberstein var skotinn til bana eftir að hafa krafið viðskiptavin bensínstöðvarinnar um að bera grímu þar inni síðasta laugardagskvöld. Morðinginn hefur verið handtekinn og segist við lögreglu hafa verið ringlaður af álagi vegna takmarkana sökum heimsfaraldursins.

Árásin var gerð á bensínstöð í Idar-Oberstein í Rínarlandi-Pfalz í vesturhluta landsins.

DW segir frá því að 49 ára karlmaður hafi skotið starfsmann bensínstöðvarinnar eftir deilur við starfsmann um skyldu viðskiptavina til að bera grímu.

Árásarmaðurinn hafi komið inn á bensínstöðina til að kaupa vörur, en farið aftur út eftir að honum lenti saman við starfsmann sem hafði krafist þess að viðskiptavinir bæru grímu líkt og fram kæmi í reglugerð.

Viðskiptavinurinn sneri svo aftur um klukkustund síðar, þá með grímu og tók hana svo af sér. Þeir fóru þá aftur að rífast og tók maðurinn fram byssu og skaut starfsmanninn í höfuðið. Árásarmaðurinn flúði svo af vettvangi.

Gaf sig fram daginn eftir

Lögregla hóf þá leit að manninum, sem gaf sig fram við lögreglu daginn eftir. Hann greindi lögreglu frá því að hann væri andvígur takmörkunum vegna Covid-19 og að þær takmarkanir sem væru í gildi hafi valdið honum miklu álagi.

Hann hafi ekki séð neitt annað í stöðunni en að setja fordæmi og því hafi hann gripið til þess ráðs að skjóta starfsmann bensínstöðvarinnar. Hann hafi litið svo á að starfsmaðurinn bæri ábyrgð þar sem það væri hann sem sæi um að framfylgja reglunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×