Sport

Handhafi næstelsta heimsmetsins látinn

Sindri Sverrisson skrifar
Júrí Sedykh vann meðal annars tvo ólympíumeistaratitla á sínum ferli.
Júrí Sedykh vann meðal annars tvo ólympíumeistaratitla á sínum ferli. Getty/Mike Powell

Besti sleggjukastari sögunnar, Úkraínumaðurinn Júrí Sedykh, lést í gær af völdum hjartaáfalls, 66 ára að aldri.

Sedykh er handhafi næstelsta heimsmetsins í frjálsíþróttum karla. Hann þeytti sleggjunni 86,74 metra 30. ágúst árið 1986. Aðeins heimsmet Austur-Þjóðverjans Jürgen Schult í kringlukasti er eldra og munar aðeins þremur mánuðum.

Sedykh vann tvo ólypíumeistaratitla, árin 1976 og 1980, og svo silfurverðlaun á ÓL 1988. Hann tók ekki frekar en aðrir Sovétmenn þátt á leikunum í Los Angeles árið 1984. Þá varð hann heimsmeistari árið 1991 í eina skiptið sem hann keppti á HM.

Á meðal þeirra sem minnast Sedykh er stangastökkvarinn og landi hans, Sergei Bubka.

Aðeins þrír frjálsíþróttamenn hafa kastað sleggju yfir 86 metra. Auk Sedykh eru það Sergej Litvinov, helsti keppinautur hans í Sovétríkjunum, og Hvít-Rússinn Ivan Tsikhans sem kastaði 86,73 metra árið 2005 en það kast var síðar dæmt ógilt eftir að Tsikhans féll á lyfjaprófi.

Eftir ferilinn settist Sedykh að með fjölskyldu sinni í Frakklandi, þar sem hann starfaði meðal annars sem þjálfari. Hann var giftur hinni rússnesku Natalíu Lisovskaia sem er einnig heimsmethafi, í kúluvarpi, en hún setti metið árið 1987 með 22,63 metra kasti. Dóttir þeirra er Alexía sem var einnig efnilegur sleggjukastari en er hætt keppni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×