Skoðun

Hugrekki til að vera græn!

Ingibjörg Ólöf Isaksen skrifar

Ef þjóðin heldur rétt á spilunum eru mikil tækifæri á Íslandi falin í öflun á grænni orku, umhverfisvænum samgöngum og grænu atvinnulífi. Traustir innviðir um land allt eru lykillinn að slíkri umbreytingu og þeim árangri í loftlagsmálum sem við viljum ná. En til þess að geta nýtt græna orku í atvinnulífi eða samgöngum þá verður að framleiða hana. Þetta er kjarninn í grein sem ég skrifaði á þessum vettvangi ekki alls fyrir löngu. Ég benti á að ef við ætlum að vera forystuþjóð á sviði grænnar orku – þá þurfum við að afla hennar.

Lykillinn að velsæld

Það er eitt mikilvægasta verkefni stjórnmálanna á næstu misserum að losa orkumálin úr stöðnun síðustu ára og horfa á það sem máli skiptir. Við verðum að hugsa og nálgast málin af skynsemi, vega og meta þá kosti sem eru í boði og taka ákvarðanir sem koma sér vel umhverfið og komandi kynslóðir. Loftslagsmál, orkuskipti og öflugt grænt atvinnulíf um allt land eru lykilatriði í farsæld okkar á næstu árum.

Breytingum í átt til grænna atvinnulífs og umhverfisvænni samgangna fylgir margvíslegur ávinningur fyrir land og þjóð. Þótt mest sé horft á loftslagsmálin þarf vart að tíunda hver gjaldeyrissparnaðurinn verður af því að keyra allar innlendar samgöngur á grænni innlendri orku í stað innfluttra og mengandi orkugjafa. Fyrirséð er að á næstu árum þurfum við að taka enn stærri skref en áður í átt til grænnar atvinnustarfsemi og grænna samfélags.

Græn framsókn í orkumálum

Hér á Íslandi eru vatns-, jarðvarma- og vindorka þeir möguleikar sem vænlegastir eru. Við höfum sýnt að við höfum þekkingu og reynslu að virkja náttúruna og á sama tíma umgangast landið okkar af virðing og varfærni. Það er því forgangsmál að skoða hvaða möguleikar eru fýsilegir til að útvega aukna græna orku og mikilvægt að greina og velja hagkvæmustu kostina. Við megum ekki vera feimin við að ræða málin og spyrja erfiðra spurninga.

Stöðnun er ekki í boði. Það þarf græna framsókn í orkumálum. Það þarf hugrekki til að taka fumlausar ákvarðanir til hagsbóta fyrir umhverfið og komandi kynslóðir.

Höfundur er í oddviti Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi við næstu Alþingiskosningar.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×