Bíó og sjónvarp

Raufarhólshelli breytt í bíósal í fyrsta skipti á RIFF

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Hellabíó verður í boði á RIFF í ár.
Hellabíó verður í boði á RIFF í ár.

Á RIFF í ár verður ævintýramynd með David Bowie sýnd í iðrum jarðar. Takmarkaður fjöldi miða verður í boði en miðasala hófst nú klukkan fjögur.

Undirbúningur fyrir átjándu Alþjóðlegu kvikmyndahátíðina í Reykjavík stendur nú sem hæst en hátíðin hefst í lok mánaðar. Margir spennandi sérviðburðir verða á dagskrá og einn ef þeim er hellabíó en til stendur að breyta Raufarhólshelli í bíósal þann 6. október næstkomandi. Sýnd verður geysivinsæl ævintýramynd, Völundarhús, eða Labyrinth, með David Bowie í aðalhlutverki. 

Gott að taka með kakó og teppi

Viðburðurinn er haldinn í samstarfi við Arctic Adventures sem m.a sér um nauðsynlegan öryggisbúnað. Tvær sýningar eru í boði og miðafjöldi er mjög takmarkaður. Miðasala er hafin á síðu RIFF.

„Þetta er í fyrsta sinn sem Raufarhólshellir sýnir bíó. Auðvelt aðgengi er að hellinum sem er aðeins í um fjörutíu mínútna keyrslu frá Reykjavík og næg bílastæði fyrir utan. Hellirinn sjálfur er einstök upplifun og rammar inn sýninguna á Labyrinth sem eins og nafnið gefur til kynna gerist í völundarhúsi. Þetta er því einstakt tækifæri fyrir fjölskylduna að gera eitthvað óvenjulegt og ævintýralegt saman,“ segir í tilkynningu frá RIFF. 

Tvær sýningar verða 6. október klukkan 18 og 21. 

„Fyrir þá sem ekki hafa komið, þá er hægt að skoða hellinn á hefðbundinn og auðveldan hátt. Hellisgangurinn var víða varðaður stórum steinum sem áður ollu því að hann var erfiður yfirferðar. Nú er þar göngubrú og göngustígar og hellirinn því flestum fær. Hluti hellarins er lýstur með áhrifaríkum hætti sem kallar fram litbrigði hraunsins og sýnir þá öflugu eldvirkni sem á sínum tíma mótaði hraunganginn. Inni í hellinum þar sem sýningin mun fara fram er pallur með stólum á.“ 

Gott er að klæða sig vel og taka með sér heitt kakó og teppi því hitastigið í hellinum er um átta gráður. Svo er bara að njóta sýningarinnar með þessari einstöku upplifun í skjóli fyrir veðri og vindum. Salernisaðstaða er á staðnum og fær fólk hjálm þegar það gengur inn en það þarf ekki að hafa hjálminn á meðan sýningu stendur. 

Labyrinth með David Bowie sem kom út árið 1986 hefur skapað sér sérstakan sess í hjörtum margra og nýtur myndin ekki síður vinsælda hjá börnum í dag sem og fullorðnum sem njóta þess að rifja upp gömul kynni við myndina með afkvæmum sínum. Í stuttu máli fjallar myndin um hina 16 ára gömlu Söru (Jennifer Connelly) sem þarf að takast á við yfirnáttúrulegt völundarhús til að bjarga nokkura mánaða gömlum bróður sínum úr klóm Goblin konungs (David Bowie) en hún óvart óskaði sér þess að konungurinn myndi taka hann burt því henni fannst hann pirrandi. Flest önnur hlutverk myndarinnar fyrir utan Söruh, bróður hennar og Goblin konung eru leikin af brúðum úr smiðju Jim Henson. 


Tengdar fréttir

Nýjasta tækni og kvikmyndir á RIFF í ár

Hvar liggja mörkin milli kvikmynda og tölvuleikja? Þessari spurningu er velt upp á Alþjóðlegu kvikmyndahátíð Reykjavíkur í ár, í nýjum flokki sem ber nafnið Nýjasta tækni og kvikmyndir, eða RIFF XR upp á ensku.

Sundbíóið hefur fest sig í sessi á RIFF

Nú fer að styttast í RIFF kvikmyndahátíðina. Upplifunarbíóið í Sundhöllinni verður aftur einn af sérviðburðum hátíðarinnar, enda hefur sundbíóið fest sig í sessi sem ein vinsælasta sýningin á RIFF.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.