Erlent

Ætlar að skylda ríkis­starfs­menn í bólu­setningu

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Joe Biden tilkynnti hina nýja stefnu í kvöld.
Joe Biden tilkynnti hina nýja stefnu í kvöld. AP Photo/Andrew Harnik

Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, stefnir á að skylda alla starfsmenn sem starfa fyrir alríkisstjórn Bandaríkjanna í bólusetningu. 

Þá mun atvinnumálaráðuneyti Bandaríkjanna gefa út nýjar reglur sem skylda alla vinnustaði þar sem fleiri en hundrað starfa að tryggja bólusetningu starfsmanna sinna eða sjá til þess að þeir séu skimaður vikulega vegna Covid-19.

Reiknað er með að bólusetningarskylda ríkisstarfsmanna og bólusetningarskylda/skimunarskylda starfsmanna vinnustaða yfir hundrað manns nái yfir tvo þriðju af vinnuafli Bandaríkjanna, eða um hundrað milljón manns.

Aðgerðarnar fela einnig í sér að heilbrigðisstarfsmenn sem sem vinna á heilbrigðisstofnun og öðrum stofnunum sem taka þátt í Medicare og Medicaid, opinberu sjúkratryggingakerfi Bandaríkjanna, þurfa að vera bólusettir. Áætlað er að þetta nái til sautján milljóna manna.

Samhliða er ætlunin að efla til muna skimanir í Bandaríkjunum. Þannig mun Biden nýta sér sérstaka neyðarheimild í lögum til þess að afla fjármuna til þess að efla framleiðslu á prófum og búnaði sem á þarf að halda til að skima fyrir Covid-19, auk þess sem að stórar verslunarkeðjur á borð við Amazon og Walmart munu selja próf á kostnaðarverði.

Með þessu ætlar Biden sér að efla viðbragð Bandaríkjanna við kórónuveirufaraldrinum en um áttatíu milljónir Bandaríkjamanna eru óbólusettir. Samkvæmt frétt Reuters eru 53 prósent Bandaríkjamanna fullbólusett.

Alls hafa um 650 þúsund manns látist af völdum Covid-19 í Bandaríkjunum. Delta-afbrigði veirunnar hefur að undanförnu sett á stað nýjar bylgjur víða um Bandaríkin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×