Erlent

Hækkar skatta vegna Covid-19

Samúel Karl Ólason skrifar
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands.
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands. EPA/NEIL HALL

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, tilkynnti í dag frumvarp um að leggja 1,25 prósenta skatt á Breta og bresk fyrirtæki. Þannig á að safna um 36 milljörðum punda (rúmum sex billjónum króna) á þremur árum sem verja á til heilbrigðis -og félagsmála.

Johnson sagði þessa hækkun tilkomna vegna aukins álags á þessa málaflokka vegna faraldurs kórónuveirunnar. Forsætisráðherrann viðurkennir að með því sé hann að brjóta eigin kosningaloforð en ítrekar að engir stjórnmálamenn hefðu séð faraldurinn fyrir.

Þessi aukna skattlagning hefst á næsta ári og heitir Johnson því að árin 2024 og ´25 verði hægt að taka á móti þriðjungi fleiri sjúklingum en áður en Covid-19 skall á.

Samkvæmt frétt BBC munu þingmenn greiða atkvæði um frumvarpið á morgun.

Johnson sagði einnig að hinir tekjuhærri muni greiða bróðurskammt þess sem safna eigi. Íbúar Bretlands myndu leggja til fjármuni í takt við eigur sínar.

„Það er ekki hægt að laga biðlista heilbrigðiskerfisins án þess að veita þeim fjármunum sem til þarf í kerfið,“ sagði Johnson. Hann sagði einni að sömuleiðis væri ekki hægt að bæta heilbrigðiskerfið án þess að bæta félagsmálin einnig.

Johnson vildi ekki útiloka að frekari skattahækkanir kæmu til greina seinna meir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×