Fótbolti

Nafnarnir spiluðu sinn hundraðasta landsleik

Valur Páll Eiríksson skrifar
Birkir Már Sævarsson spilaði sinn hundraðasta landsleik í dag.
Birkir Már Sævarsson spilaði sinn hundraðasta landsleik í dag. VÍSIR/HULDA MARGRÉT

Nafnarnir Birkir Bjarnason og Birkir Már Sævarsson spiluðu báðir sinn 100. landsleik fyrir hönd íslenska karlalandsliðsins í fótbolta í 2-2 jafnteflinu við Norður-Makedóníu undankeppni HM 2022 á Laugardalsvelli í dag.

Íslenska liðið kom til baka gegn þeim norður-makedónsku í dag þar sem Brynjar Ingi Bjarnason og Andri Lucas Guðjohnsen skoruðu sitt hvort markið á lokakafla leiksins til að jafna 2-2, eftir að Ísland hafði lent 2-0 undir.

Bæði Birkir Bjarnason og Birkir Már Sævarsson spiluðu allan leikinn í dag og báðir voru þeir að leika sinn 100. landsleik. Aðeins einn karlmaður hefur áður spilað 100 landsleiki fyrir Ísland, Rúnar Kristinsson, sem er leikjahæstur í sögu landsliðsins með 104 landsleiki.

Þeir nafnar geta báðir komist upp fyrir Rúnar í undankeppninni sem nú stendur yfir en Ísland ef hálfnað með sína leiki þar, fimm leikjum er lokið af tíu.

Birkir Már er 36 ára gamall og lék sinn fyrsta landsleik gegn Liechtenstein árið 2007, sem lauk með 1-1 jafntefli. Hinn 33 ára gamli Birkir Bjarnason lék sinn fyrsta leik í 4-0 sigri á Andorra árið 2010.

Ragnar Sigurðsson og Aron Einar Gunnarsson eru næstir á eftir nöfnunum með 97 landsleiki hvor og þá er Kári Árnason í fimmta sæti eftir leik dagsins, sem var hans nítugasti leikur. Hann fór þar með upp fyrir Hermann Hreiðarsson sem lék 89 landsleiki á sínum landsliðsferli.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×