Erlent

Ráðherra sker upp herör gegn neyslu glaðlofts

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Neyslan hefur ekki bara heilsufarslegar afleiðingar heldur leiðir hún til sóðaskapar.
Neyslan hefur ekki bara heilsufarslegar afleiðingar heldur leiðir hún til sóðaskapar. Getty

Innanríkisráðherra Breta, Priti Patel, hefur greint frá því að hún hyggist láta rannsaka áhrif notkunar ungmenna á nituroxíði, sem einnig er kallað glaðloft eða hláturgas. Til greina kemur að gera notkunina ólöglega.

Næstum eitt af hverjum tíu ungmennum notaði nituroxíð á tímabilinu 2019 til 2020. Algengast er að gasinu sé fyllt á blöðrur úr litlum hylkjum og að ungmennin andi loftinu að sér úr blöðrunum. 

Gashylkin eru auðfáanleg í næstu verslun en þau eru einna helst notuð í rjómasprautur. Samkvæmt frétt Guardian má gjarnan sjá þau liggja á víð og dreif á hátíðarsvæðum og skemmtistöðum.

Það er nú þegar ólöglegt að selja nituroxíð til neyslu en eins og stendur er ekki ólöglegt að hafa gasið á sér eða neyta þess.

Patel segist vera reiðubúin til að grípa til harðra aðgerða til að draga úr notkun nituroxíðs en áhrif þess séu afar hættuleg. Langvarandi notkun geti leitt til B12 skorts og blóðleysis. Þá sé gassins oft neytt á „andfélagslegum“ mannamótum og leiði til sóðaskapar.

Royal Society for Publich Health hefur hins vegar lýst sig andsnúið hugmyndum Patel og segir alls óvíst að það að gera nituroxíð ólöglegt muni hafa tilætluð áhrif. Þá segja samtökin Release glæpavæðingu gassins myndu leiða til þess að fjöldi ungmenna myndi lenda á sakaskrá, sem væri mun skaðvænlegra fyrir framtíð þeirra en neysla gassins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×