Á undanförnum dögum hefur í ljós komið að Kolbeinn Sigþórsson greiddi Þórhildi Gyðu Arnarsdóttur miskabætur fyrir að hafa brotið á henni á skemmtistað í Reykjavík árið 2017. Einnig á Kolbeinn að hafa brotið gegn annarri konu.
Eftir að staðreyndir málsins komu upp á yfirborðið var Kolbeinn tekinn út úr íslenska landsliðshópnum fyrir komandi verkefni. Nú er ljóst að staða hans hjá sænska úrvalsdeildarliðinu Gautaborg er í óvissu en Kolbeinn samdi við félagið fyrir yfirstandandi leiktíð.
„Við erum að ræða þetta mál innanhúss,“ sagði Håkan Mild, framkvæmdastjóri félagsins, í viðtali við sænska miðilinn Fotbollskanalen.
Håkan Mild og aðrir stjórnarmeðlimir Gautaborgar komust að þessu í gær, mánudaginn 30. ágúst, og hefur félagið fordæmt hegðun leikmannsins. Staða hans hjá félaginu er nú til skoðunar eins og sagði í yfirlýsingu frá Gautaborg í gærkvöld.
Samkvæmt Mild tekur Gautaborg málið mjög alvarlegt þó svo að því sé í lagalegum skilningi „lokað“ segir í frétt Fotbollskanalen. Hann vildi lítið gefa upp nema að félagið sé að skoða alla möguleika, þar á meðal að rifta samningi Kolbeins.