Erlent

Metfjöldi smita greinist í Ísrael

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Stjórnvöld í Ísrael hvetja nú alla til að þiggja örvunarskammt af bóluefninu gegn Covid-19.
Stjórnvöld í Ísrael hvetja nú alla til að þiggja örvunarskammt af bóluefninu gegn Covid-19. epa/Abir Sultan

Alls greindust 10.947 með Covid-19 í Ísrael síðastliðinn sólarhring en um er að ræða metfjölda greininga á einum degi í landinu. Mest höfðu 10.118 greinst smitaðir á einum degi þann 18. janúar síðastliðinn.

Ísrael var eitt fyrsta ríki heims til að hefja bólusetningarátak gegn kórónuveirunni en um 60 prósent íbúa hafa verið fullbólusett og 80 prósent fullorðinna.

Þrátt fyrir þetta hefur delta-afbrigðið valdið nokkrum usla en nýkjörinn forsætisráðherra, Naftali Bennett, segir að bylgjunni yrði haldið í skefjum með bólusetningum og vægum sóttvarnaaðgerðum á borð við grímuskyldu og fjöldatakmarkanir.

Stjórnvöld hafa hvatt alla landsmenn 12 ára og eldri til að þiggja örvunarskammt og stefna ótrauð á fyrirhugaða opnun skóla á morgun, þrátt fyrir fjölda smita.

Bennett segir örvunarskammtana þegar hafa skilað árangri, meðal annars færri innlögnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×