Innlent

Leggur til sam­ræmda þjónustu fyrir þol­endur heimilis­of­beldis

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Drífa Jónasdóttir, afbrotafræðingur.
Drífa Jónasdóttir, afbrotafræðingur. visir

Ekkert samræmt verklag er á landsvísu í þjónustu við þolendur heimilisofbeldis. Lagt er til að þessu verði breytt í tillögum sem heilbrigðisráðherra tók við í dag. Afbrotafræðingur væntir þess að skýrt verklag styrki málstað þolenda.

Drífa Jónasdóttir fór fyrir starfshópi sem skilaði heilbrigðisráðuneytinu tillögum að samræmdu verklagi fyrir heilbrigðisstofnanir vegna þjónustu við þolendur heimilisofbeldis. Tillögurnar eru í sex liðum. 

Meðal annars er lagt til, að frumkvæði embætti ríkissaksóknara, að réttarlæknisfræðileg skoðun þolenda ofbeldis verði framkvæmd á ákveðin máta.

„Þeir séu skoðaðir á ákveðin máta sem nýtist áfram inn í dómstólana. Að það sé ekki bara svona eitthvað sem heilbrigðisstarfsmaður tekur niður á sínu tungumáli og vanti kannski upplýsingar. Því að heilbrigðisstarfsmaður veit ekki hvað lögreglan þarf eða dómstólarnir þannig að þetta er heildstæð skráning varðandi móttöku þolenda heimilisofbeldis á heilbrigðisstofnunum á íslandi,“ sagði Drífa Jónasdóttir.

Sú skoðun yrði framkvæmd í alvarlegustu tilfellunum.

„Lögreglan þá ákveður það að hér eigi að kalla til einhvern til þess að gera þessa skoðun og hún er þá miklu ítarlegri en þessi hefðbundna skoðun.“

Í dag er ekkert samræmt verklag á landinu í þjónustu við þolendur heimilisofbeldis. Drífa segir að heilbrigðisráðherra hafi tekið vel í tillögurnar og að hún ætli að beita sér fyrir því að þeim verði fylgt eftir.

„Það vantar þetta samræmda verklag og skráningu, að allir geri eins. Alveg sama hvar maður lendir inni á heilbrigðisstofnun, hvort sem það er andlegt ofbeldi, líkamlegt, kynferðislegt eða hvort það verði skörun þar á. Að það sé ekki misjafnt hvað er gert.“

Hún væntir þess að skýrt verklag styrki málstað þolenda í ofbeldismálum, ekki síst ef þeir leita réttar síns.

„Já væntanlega skilar þetta sér inn í dómstólana líka, ég held að það sé afleidd afurð af þessu verkefni, vonandi.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×