Á vefsíðunni ABBA Voyage sem opnaði í dag er lítið að finna annað en einhvers konar glóandi hnetti og dagsetningin 2. september. Aðdáendur þurfa því ekki að bíða lengi eftir frekari upplýsingum en eru hvattir til þess að skrá sig á póstlista til þess að fá tilkynninguna í næstu viku.
Sögusagnir eru um að ABBA sé að fara af stað með heilmyndartónleikaferðalag, þar sem heilmyndum (e.hologram) af meðlimum hljómsveitarinnar á ákveðnum aldursskeiðum verður varpað á svið. Hvort þetta verður heimildarmyndaform, tónleikar eða bæði, mun koma betur í ljós í næstu viku.
Agnetha Faltskog, Anna-Frid Lyngstad, Bjorn Ulvaeus og Benny Andersson tóku upp lögin I Still Have Faith In You og Don't Shut Me Down árið 2018 en mikil töf hefur svo orðið á útgáfu þeirra. Er hugsanlegt að lögin muni koma út í næstu viku.
Samkvæmt frétt BBC verður aðdáendum launuð þolinmæðin og biðin með því að lögin verða nú fimm en ekki bara tvö. Þetta verður fyrsta tónlistin sem hljómsveitin gefur út í fjóra áratugi.
Hljómsveitin vinsæla var fyrst stofnuð árið 1972. Björn er í dag 76 ára, Anni-Frid 75 ára, Benny 74 ára og Agnetha er 71 árs.
Join us at https://t.co/AAFQLIrqJu #ABBAVoyage pic.twitter.com/7LYw3kojzB
— ABBA Voyage (@ABBAVoyage) August 26, 2021