Erlent

Gigtar­lyf í flýtimati sem með­ferð við Co­vid-19

Eiður Þór Árnason skrifar
Lyfjastofnun Evrópu hyggst greina frá niðurstöðum um leið og upplýsingar liggja fyrir. 
Lyfjastofnun Evrópu hyggst greina frá niðurstöðum um leið og upplýsingar liggja fyrir.  Getty/Paulo Amorim

Lyfjastofnun Evrópu (EMA) hefur hafið mat á því hvort gigtarlyfið RoActemra nýtist sem meðferð við alvarlegum Covid-19 sjúkdómi. Einna helst er til skoðunar hvort lyfið gagnist fullorðnum sjúklingum sem liggja á sjúkrahúsi, eru á sterameðferð og þurfa súrefnisgjöf eða öndunarvélastuðning.

Frá þessu er greint á vef Lyfjastofnunar en RoActemra hefur verið í notkun í um áratug og nýst við meðhöndlun gigtar og annarra bólgusjúkdóma. Er því talið líklegt að það gagnist við að hemja bólgur sem jafnan fylgja alvarlegum veikindum Covid-19.

Virkni lyfsins byggir á því að stöðva framgang interleukin-6, frumuboðefnis sem ónæmiskerfi líkamans framleiðir í bólgusvari.

Sérfræðinganefnd EMA um lyf fyrir menn metur nú gögn sem bárust með umsókn um nýja ábendingu lyfsins. Þar á meðal eru niðurstöður fjögurra stórra slembiraðaðra rannsókna sem nefndin skoðar til að meta hvort þeim Covid-19 sjúklingum sem fengu RoActemra farnaðist betur en hinum sem fengu það ekki.

Samkvæmt tilkynningu frá EMA er reiknað með því að upplýsingar um niðurstöðu matsins verði veittar um miðjan október.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×