Fótbolti

Hyypia lét kveikja í sér á hátíð

Sindri Sverrisson skrifar
Sami Hyypiä er enn eldheitur stuðningsmaður Liverpool.
Sami Hyypiä er enn eldheitur stuðningsmaður Liverpool. Skjáskot/@samihyypia4 og Getty

Hvað ætli Liverpool-goðsögnin Sami Hyypiä sé að gera þessa dagana? Kappinn gekk alla vega um í ljósum logum á tónlistarhátíð í Finnlandi um helgina.

Skipuleggjendur hátíðarinnar Simerock fengu Hyypiä til að taka þátt í óvenjulegu atriði um helgina, þar sem kveikt var í klæðum hans og hann gekk um í nokkra stund áður en hann slökkti eldinn með því að leggjast niður í vatn.

Hyypiä sýndi frá þessu á Instagram og skipaði fólki að reyna þetta ekki heima hjá sér. „Ég veit ekki hvernig þeir fengu mig út í þetta en ég treysti fagfólkinu sem gerði þetta mjög öruggt,“ skrifaði Hyypiä með myndbandinu.

Hyypiä lék í áratug með Liverpool, frá 1999-2009, og varð meðal annars Evrópumeistari með liðinu árið 2005. Eftir að hafa leikið með þýska liðinu Leverkusen í tvö ár lagði hann skóna á hilluna árið 2011. Hann hafði þá leikið 105 landsleiki fyrir Finnland.

Þjálfaraferill Hyypiä gekk ekki eins vel en hann stýrði Leverkusen í tvö ár og gerði samning til þriggja ára við enska félagið Brighton sumarið 2014 en var svo rekinn hálfu ári síðar. Hann reyndi einnig fyrir sér sem þjálfari svissneska félagsins Zürich en var rekinn áður en tímabilinu lauk, vorið 2016. Síðan þá hefur hann ekki starfað sem aðalþjálfari.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×