Erlent

Bólu­efni Pfizer fær fullt markaðs­leyfi í Banda­ríkjunum

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Bóluefni Pfizer er mest notaða bóluefnið í Bandaríkjunum, rétt eins og hér á landi.
Bóluefni Pfizer er mest notaða bóluefnið í Bandaríkjunum, rétt eins og hér á landi. David Dee Delgado/Getty

Matvæla- og lyfjaeftirlit Bandaríkjanna (FDA) hefur samþykkt alfarið notkun bóluefnis Pfizer og BioNTech við kórónuveirunni í Bandaríkjunum. Hingað til hefur bóluefnið verið notað í skjóli neyðarleyfis. Talið er að ákvörðunin gæti hvatt fleiri Bandaríkjamenn til að láta bólusetja sig.

Bóluefnið, sem hér á landi er oftast kennt við Pfizer, hefur verið með neyðarleyfi til notkunar fyrir 16 ára og eldri frá því í desember á síðasta ári. Í maí síðastliðnum veitti FDA síðan neyðarheimild fyrir notkun þess hjá börnum 12 til 16 ára.

Bandarískir fjölmiðlar segja frá því að ákvörðunin um að veita bóluefninu fullt markaðsleyfi gæti orðið til þess að hvetja fólk sem hingað til hefur efast um ágæti bóluefna gegn kórónuveirunni til þess að láta bólusetja sig. Þá er talið að ákvörðunin geti veitt sterkan grundvöll fyrir því að fyrirtæki og stofnanir geri bólusetningu að skilyrði í ákveðnum tilfellum.

„Fyrir fyrirtæki og háskóla sem hafa íhugað að gera bólusetningu að skilyrði, í því skyni að skapa öruggara umhverfi fyrir fólk til að læra og vinna, held ég að þessi ákvörðun muni hjálpa þeim með að fara áfram með slík áform,“ hefur BBC eftir landlækni Bandaríkjanna, Dr. Vivek Murphy.

Bóluefni Pfizer er mest notaða bóluefnið í Bandaríkjunum, rétt eins og á Íslandi. Af rúmlega 170 milljónum sem hafa hlotið fulla bólusetningu við kórónuveirunni hafa yfir 92 milljónir verið bólusettar með Pfizer.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×