Fótbolti

Ísland upp fyrir Kína og sænska silfurliðið á flugi

Sindri Sverrisson skrifar
Íslenska landsliðið er það tíunda besta í Evrópu nú þegar innan við ár er í Evrópumótið sem fram fer á Englandi.
Íslenska landsliðið er það tíunda besta í Evrópu nú þegar innan við ár er í Evrópumótið sem fram fer á Englandi. vísir/Hulda Margrét

Íslenska kvennalandsliðið í fótbolta er það tíunda besta í Evrópu og það sextánda besta í heimi samkvæmt nýjasta styrkleikalista FIFA sem gefinn var út í dag.

Tæpir tveir mánuðir eru frá síðasta lista og þó að Ísland hafi ekki spilað leik á þeim tíma þá færist liðið upp um eitt sæti á milli lista, upp fyrir Kína sem féll um tvö sæti. Ísland er næst á eftir Danmörku.

Næstu mótherjar Íslands, Evrópumeistarar Hollands, eru í 4. sæti og standa þar í stað. Hollendingar komust í 8-liða úrslit á Ólympíuleikunum en féllu úr leik gegn Bandaríkjunum eftir vítaspyrnukeppni.

Ísland og Holland mætast á Laugardalsvelli eftir mánuð, í fyrstu umferð undankeppni HM. Ísland er einnig í riðli með Tékklandi (27. sæti á heimslista), Hvíta-Rússlandi (53. sæti) og Kýpur (126. sæti).

Efstu Evrópuþjóðirnar á heimslista FIFA. Ísland er tíunda Evrópuþjóðin, í 16. sæti heimslistans.FIFA.com

Bandaríkin tróna á toppnum

Þrátt fyrir að hafa þurft að sætta sig við bronsverðlaun á Ólympíuleikunum þá eru Bandaríkin enn langefst á heimslistanum. Svíar, sem unnu silfur á leikunum en töpuðu úrslitaleiknum gegn Kanada í vítaspyrnukeppni, bættu við sig fjölda stiga og komust upp um þrjú sæti; í 2. sæti heimslistans.

Þýskaland færðist niður í 3. sæti og Frakkland niður í 5. sæti, þar sem Svíþjóð sat áður. Ólympíumeistarar Kanada eru svo í 6. sæti heimslistans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×