Innlent

Ákveðin uppgjöf að ætla að takmarka fjölda ferðamanna

Birgir Olgeirsson skrifar
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamálaráðherra. 
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamálaráðherra.  Vísir/Vilhelm

Ferðamálaráðherra segir það ákveðna uppgjöf að ætla takmarka fjölda ferðamanna til Íslands. Hún telur ekki tímabært að ræða samkomutakmarkanir til margra mánuða, líkt og sóttvarnalæknir hefur lagt til í minnisblaði sínu. Veiran sé komin til að vera og lífið þurfi að komast sem fyrst í eðlilegt horf.

Í minnisblaði um framtíðarfyrirkomulag sóttvarna leggur sóttvarnalæknir til að allir farþegar verðir skimaðir við komuna til landsins. Verði ekki hægt að anna því leggur sóttvarnalæknir til að leitað verði leiða til að takmarka fjölda ferðamanna svo kerfið ráði við eftirlitið.

„Mér fyndist þetta ákveðin uppgjöf gagnvart því verkefni að það hlítur að vera langneðst á lista að fara takmarka komur fólks til landsins út frá praktísku kerfi sem við höfum komið á til að takmarka að smit komist inn til landsins,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ferðamálaráðherra spurð út í tillögu sóttvarnalæknis.

Tillagan hefur verið rædd í ríkisstjórn.

„Og ég var mjög ánægð að heyra að þetta komi ekki til greina almennt hjá okkur sem þar sitjum“

Þetta sé ekki valkostur í hennar huga. Staðan sé allt önnur með víðtækri bólusetningu gegn veirunni. Finna aðra lausn til að bæta flæðið á Keflavíkurflugvelli. Í minnisblaði Þórólfs leggur hann til aðgerðir innanlands til næstu mánaða sem varða fjöldatakmarkanir, grímuskyldu og fjarlægðarmörk.

Þórdís telur ekki tímabært að ræða slíkt.

„Ég legg á það áfram áherslu að við komumst sem fyrst í eðlilegt horf með það yfir okkur að þessi veira er komin til að vera. Hún hefur áhrif og því munu fylgja verkefni áfram. En mér finnst ekki tímabært að vera tala um svona miklar takmarkanir um margra mánaða skeið.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×