Í grein Fastcompany segir þó að víða í fyrirtækjum séu stjórnendur efins og hræðist að þetta blandaða fyrirkomulag eigi ekki eftir að ganga upp sem skyldi.
En hvers vegna þessi efi?
Jú, þar eru fjórar mýtur helst sagðar hafa áhrif en þær eru þessar:
1. Hafa áhyggjur af því að fjarvinna dragi úr afköstum starfsfólks
Þrátt fyrir að rannsóknir hafi sýnt að fjarvinna sé alls ekki líkleg orsök fyrir því að starfsfólk dragi úr afköstum sínum, eru enn stjórnendur sem trúa því að svo sé. Til að eyða þessum efa er stjórnendum bent á að treysta starfsfólkinu sínu.
Sem dæmi er bent á að almennt treysti stjórnendur starfsfólkinu sínu til að stela ekki peningum úr kassanum. Hvers vegna ætti ekki að treysta fólki til að skila sínu þótt það vinni að heiman?
2. Trúa því að fjarvinna bitni á góðri hópavinnu
Þá eru stjórnendur sem hafa áhyggjur af því að öflug og góð hópavinna teyma muni glatast eða í það minnsta verða mun minni, vegna þess að starfsfólk er ekki lengur allt að vinna á sama stað.
Hér er á það bent að svo lengi sem samskipti og upplýsingaflæði er gott á vinnustað þar sem starfsfólk starfar í fjarvinnu, er engin ástæða til að halda að fjarvinnan eyðileggi nokkuð fyrir góðri hópavinnu.
Þvert á móti getur hópavinna orðið meiri og öflugri.
Þá hafa rannsóknir sýnt að góðar hugmyndir, lausnir og fleira sem skapast í umræðum á milli starfsfélaga koma oftar fram utan funda en á fundum.
Að starfsfólk sitji á sama stað til þess að ræða málin er því ekkert endilega það fyrirkomulag sem skilar mestu.
Aðalmálið er að samskiptin séu virk, hvernig svo sem þau fara fram.
3. Telja fjarvinnu veikja vinnustaðamenninguna
Að byggja upp sterka vinnustaðamenningu með starfsfólk í fjarvinnu er svo sannarlega ný áskorun fyrir stjórnendur.
En ný áskorun stjórnenda segir ekkert til um það hvað er mögulegt og hvað ekki, heldur snýst málið fyrst og fremst um það hvernig stjórnendum muni sjálfum takast upp við að byggja upp sterka vinnustaðamenningu með starfsfólk í fjarvinnu.
Hér er á það bent að stjórnendur þurfi að hafa skýra framtíðarsýn og stefnu um það hvernig ætlunin er að byggja upp sterka vinnustaðamenningu í breyttum veruleika.
4. Þetta endar með því að allir mæta aftur til vinnu
Loks er það sá hópur stjórnenda sem trúir því að fjarvinna sé í raun tímabundið ástand og endurspegli fyrst og fremst þá stöðu og þann tíðaranda sem Covid hefur leitt af sér.
Þessi stjórnendahópur er þá svo efins um tækifæri fjarvinnunnar að hann sér framtíðina fyrir sér hreinlega ekki ganga upp fyrir vinnustaði, með stóran hluta fólks að vinna í fjarvinnu.
Að skikka starfsfólk aftur í staðbundna vinnu gæti hins vegar orðið dýrkeypt skref fyrir vinnuveitendur því erlendar rannsóknir sýna að í framtíðinni muni fólk meta störf og vinnustaði meðal annars útfrá þeim sveigjanleika sem boðið er upp á í samkomulagi um fjarvinnu.
Þessar niðurstöður eru í takt við þær niðurstöður sem gerðar hafa verið hérlendis og fjallað hefur verið um í Atvinnulífinu. Þá hafa stjórnendur íslenskra fyrirtækja staðfest mikinn áhuga starfsfólks á breyttu ráðningasambandi, þar sem starfsfólk horfir á fjarvinnusamkomulag sem spennandi valkost.