Erlent

Þúsundir flýja gróður­elda á Frönsku rivíerunni

Atli Ísleifsson skrifar
Gróðureldar hafa meðal annars logað nærri bænum Le Luc í suðurhluta Frakklands.
Gróðureldar hafa meðal annars logað nærri bænum Le Luc í suðurhluta Frakklands. AP

Þúsundir manna, þeirra á meðal mikill fjöldi erlendra ferðamanna á tjaldsvæðum, hafa þurft að flýja af hluta Frönsku rivíerunni vegna gróðurelda sem hafa þar blossað upp.

Breska ríkisútvarpið segir frá því að mörgum hafi einungis verið gefinn nokkurra mínútna frestur til að hafa sig á brott vegna eldanna í Var-héraði, vestur af ferðamannastaðnum Saint-Tropez á frönsku Miðjarðarhafsströndinni.

Talsmenn slökkviliðs segja eldana hafa blossað upp í gær og ná þeir nú yfir rúmlega fimm þúsund hektara svæðis, um fimmtíu ferkílómetra. Mikil hitabylgja hefur herjað á íbúa á svæðinu og þannig gerðu spár ráð fyrir rúmlega 35 stiga hita í dag.

Um tuttugu manns hafa greinst með reykeitrun vegna eldanna og þá hafa þrír særst.

Gróðureldar hafa geisað víðs vegar um suðurhluta Evrópu í sumar, þar á meðal í Grikklandi, Tyrklandi, Spáni og Portúgal og segja sérfræðingar að náttúruhamfarir sem þessar komi til með að verða algengari á komandi árum vegna loftslagsbreytinga og mikillar losunar gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×