Erlent

Koma á út­göngu­banni eftir fyrsta sam­fé­lags­smitið síðan í febrúar

Atli Ísleifsson skrifar
Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja-Sjálands, segir nauðsynlegt að grípa til harðra aðgerða og það strax.
Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja-Sjálands, segir nauðsynlegt að grípa til harðra aðgerða og það strax. EPA

Stjórnvöld á Nýja-Sjálandi hafa ákveðið að koma á útgöngubanni alls staðar í landinu eftir að einn maður greindist með kórónuveiruna í borginni Auckland.

Um er að ræða fyrsta samfélagssmitið í landinu síðan í febrúar og vinna stjórnvöld þar í landi út frá því að um Delta-afbrigði veirunnar sé að ræða.

Búið er að setja landið allt á fjórða og hæsta viðbúnaðarstig vegna umrædds smits. Gilda reglurnar um útgöngubann í héruðunum Auckland og Coromandel næstu sjö daga, en næstu þrjá daga í öðrum héruðum landsins.

Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja-Sjálands, segir nauðsynlegt að grípa til harðra aðgerða og það strax þar sem Delta-afbrigðið hafi breytt öllum forsendum í baráttunni við kórónuveiruna. „Við höfum séð það annars staðar hvað gerist, takist okkur ekki að ná tökum á þessu. Við höfum bara eitt tækifæri.“

Sá sem smitaðist var 58 ára karlmaður frá Devonport í Auckland. Hann fór í sýnatöku síðastliðinn laugardag. Maðurinn og eiginkona hans höfðu þá ferðast til Coromandel á föstudeginum og snúið aftur til Auckland á sunnudeginum.

Í síðustu viku greindi Ardern frá því að landamæri Nýja-Sjálands verði lokuð út þetta ár vegna aukinnar útbreiðslu kórónuveirunnar. Það væri besta leiðin til að halda veirunni í skefjum og efnahagslífinu gangandi.

Frá upphafi faraldursins hafa 2.500 manns greinst með kórónuveiruna á Nýja-Sjálandi og hafa 26 dauðsföll verið rakin til Covid-19.


Tengdar fréttir

Lok og læs á Nýja-Sjálandi út árið

Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja-Sjálands tilkynnti í gær að landamæri ríkisins verði lokuð út þetta ár vegna aukinnar útbreiðslu kórónuveirunnar. Það væri besta leiðin til að halda veirunni í skefjum og efnahagslífinu gangandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×