Innlent

Bólu­settir með tengsl við Ís­land þurfa nú í sýna­töku eftir komu til landsins

Atli Ísleifsson skrifar
Umræddir farþegar munu ekki þurfa að sæta sóttkví þar til niðurstaða úr sýnatöku liggur fyrir.
Umræddir farþegar munu ekki þurfa að sæta sóttkví þar til niðurstaða úr sýnatöku liggur fyrir. Vísir/Vilhelm

Bólusettir farþegar og þau sem hafa vottorð um fyrri sýkingu með tengsl við Ísland þurfa frá og með deginum í dag að fara í sýnatöku innan tveggja sólarhringa frá komu til landsins. Börn fædd 2005 og síðar eru undanskilin nýjum reglum.

Ríkisstjórnin tók ákvörðun um þessar nýju reglur á fundi sínum fyrir tíu dögum, en tóku gildi nú á miðnætti.

Einstaklingar með tengsl við Ísland teljast:

  • Íslenskir ríkisborgarar
  • Einstaklingar búsettir á Íslandi
  • Einstaklingar með atvinnuleyfi á Íslandi
  • Umsækjendur um atvinnuleyfi eða alþjóðlega vernd á Íslandi

Á vef stjórnarráðsins segir að umræddir farþegar muni ekki þurfa að sæta sóttkví þar til niðurstaða úr sýnatöku liggur fyrir.

„Gert er ráð fyrir að fólk fari annaðhvort í hraðpróf (antigen) eða PCR-próf, en nánara fyrirkomulag verður unnið í samráði við sóttvarnalækni. Þá verður hægt að fara í sýnatöku annaðhvort á landamærum eða á sýnatökustöð innan tímamarkanna og verður sýnatakan gjaldfrjáls. Heimilt verður að sekta þá einstaklinga sem ekki fara í sýnatöku innan tiltekins tíma,“ segir í tilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×