Körfubolti

Elvar sá fyrsti til að skora 30 stig á móti Dönum í 41 ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Danir réðu ekkert við Elvar Friðriksson í leiknum á föstudagskvöldið.
Danir réðu ekkert við Elvar Friðriksson í leiknum á föstudagskvöldið. fiba.basketball

Elvar Már Friðriksson fór á kostum á dögunum þegar íslenska körfuboltalandsliðið burstaði Dani með 21 stigi í forkeppni HM í körfubolta.

Elvar skoraði 30 stig í leiknum auk þess að vera með 5 fráköst 5 stoðsendingar á þeirri 31 mínútu sem hann spilaði. Ísland vann líka með 26 stigum þegar hann var inn á vellinum.

Elvar var sjóðandi heitur fyrir utan þriggja stiga línuna og hitti úr 6 af 8 þriggja stiga skotum sínum.

Elvar Már Friðriksson skorar eina af körfum sínum í leiknum.fiba.basketball

Það þarf líka að fara langt aftur til að finna íslenskan körfuboltamann sem skoraði þrjátíu stig á móti Dönum og í raun hefur aðeins einn annar íslenskur landsliðsmaður náð því.

Elvar bættist þarna í hóp með NBA leikmanninum Pétri Karli Guðmundssyni. Pétur skoraði 32 stig á móti Dönum á Norðurlandamótinu í apríl 1980 eða fyrir meira en 41 ári síðan.

Pétur fór þá á kostum í tuttugu stiga sigri á Dönum en Norðurlandamótið fór þá fram í Osló í Noregi. Pétur skoraði 19 stigum meira en næsti maður sem var bakvörðurinn Jón Sigurðsson.

Pétur Guðmundsson í leik með Los Angeles Lakers.Skjámynd

Það merkilega við þessa frammistöðu Pétur var að hann var í villuvandræðum og náði bara að spila nítján mínútur í leiknum. Danirnir réðu hins vegar ekkert við kappann þegar hann var inn á gólfinu. Einu ári síðar þá var Pétur kominn í NBA-deildina fyrstur Íslendinga.

Hér fyrir neðan má sjá þá leikmenn sem hafa skorað mest í einum leik á móti Dönum.

Flest stig í einum landsleik á móti Danmörku:

  • 32 stig - Pétur Guðmundsson 12. apríl 1980 (Norðurlandamót)
  • 30 stig - Elvar Már Friðriksson 13. ágúst 2021 (Forkeppni HM)
  • 29 stig - Valur Ingimundarson 26. apríl 1987 (Norðurlandamót)
  • 29 stig - Pálmar Sigurðsson 21. aprí 1985 (Norðurlandamót)
  • 29 stig - Pétur Guðmundsson 6. apríl 1979 (Vináttulandsleikur)
  • 28 stig - Jóhannes Kristbjörnsson 5. janúar 1986 (Vináttulandsleikur)
  • 28 stig - Einar Bollason 11. apríl 1970 (Norðurlandamót)
  • 26 stig - Valur Ingimundarson 11. september 1987 (Vináttulandsleikur)
  • 25 stig - Teitur Örlygsson 26. maí 1996 (Undankeppni Evrópumóts)
  • 25 stig - Teitur Örlygsson 13. maí 1995 (Vináttulandsleikur)
  • 25 stig - Guðjón Skúlason 30. desmber 1989 (Vináttulandsleikur)
  • 25 stig - Þorsteinn Hallgrímsson 20. mars 1964 (Norðurlandamót)



Fleiri fréttir

Sjá meira


×