Úrugvæski markahrókurinn Luis Suarez hóf leik á varamannabekk Atletico þegar liðið heimsótti Celta Vigo í dag og meðan hans naut ekki við skein stjarna Angel Correa.
Correa kom Atletico í forystu á 23.mínútu leiksins og hélst gestunum forystan inn í leikhléið.
Eftir klukkutíma leik var vítaspyrna dæmd til heimamanna og úr henni skoraði Iago Aspas.
Correa var fljótur að svara og kom Atletico aftur í forystu á 64.mínútu.
Fleiri urðu mörkin ekki þrátt fyrir rúmar tíu mínútur í uppbótartíma en þó ekkert hafi verið skorað í uppbótartímanum fóru tvö rauð spjöld á loft þar sem þeir Hugo Mallo, varnarmaður Celta Vigo og Mario Hermoso, varnarmaður Atletico, voru reknir af velli.
Lokatölur 1-2 fyrir Atletico Madrid.