Erlent

Heimild veitt fyrir örvunarskömmtum fyrir fólk með skert ónæmiskerfi

Kjartan Kjartansson skrifar
Leyfi þurfti frá Lyfjastofnun Bandaríkjanna til þess að heilbrigðisyfirvöld gætu mælt með örvunarskömmtum af bóluefni gegn kórónuveirunni.
Leyfi þurfti frá Lyfjastofnun Bandaríkjanna til þess að heilbrigðisyfirvöld gætu mælt með örvunarskömmtum af bóluefni gegn kórónuveirunni. AP/Mary Altaffer

Lyfjastofnun Bandaríkjanna (FDA) hefur lagt blessun sína yfir af örvunarskammtar af bóluefni Pfizer og Moderna verði gefnir fólki með skerta ónæmiskerfisstarfsemi. Yfirvöld í nokkrum ríkjum, þar á meðal Íslandi, hafa gripið til þess ráðs að endurbólusetja fólk til að verjast delta-afbrigði kórónuveirunnar.

Heimildin sem stofnunin gaf út er fyrir líffæraþega eða fólk með sjúkdóma sem skerða starfsemi ónæmiskerfisins á sambærilegan hátt, að sögn Reuters-fréttastofunnar. Það er um 3% Bandaríkjamanna, að sögn AP-fréttastofunnar. Heilbrigðisyfirvöld í Bandaríkjunum hafa sagt að fólk með veikt ónæmiskerfi njóti mögulega ekki nægilegrar verndar af bóluefnum gegn kórónuveirunni.

Bæði Pfizer og Moderna hafa sagt að virkni bóluefnis þeirra dofni með tímanum. Rannsókn benti til þess að virkni Pfizer-bóluefnisins minnkaði úr 96% í 84% fjórum mánuðum eftir seinni skammt. Moderna segist telja þörf á örvunarskömmtum í ljósi þess að fullbólusett fólk hefur smitast af delta-afbrigðinu.

Sérfræðingar eru ekki á einu máli um hvort að rétt sé að ráðast í almenna endurbólusetningu gegn Covid-19 hjá fullfrísku fólki þar sem ekki liggi fyrir hver ábatinn af örvunarskammtum sé.

Þá hvatti Alþjóðaheilbrigðisstofnunin til þess að ríki biðu með endurbólusetningu fram á haustið að minnsta kosti til þess að gefa þróunarrríkjum færi á að frumbólusetja sitt fólk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×