Veður

Hiti upp undir 25 stig á Norð­austur­landi

Atli Ísleifsson skrifar
Veðurstofan spáir að hitastig nái að 25 stigum norðaustanlands eftir hádegi í dag.
Veðurstofan spáir að hitastig nái að 25 stigum norðaustanlands eftir hádegi í dag. Veðurstofan

Spáð er að hitatölur verði með því hærra sem sjáist hér á landi í dag þar sem verður upp undir 25 stiga hiti á Norðausturlandi í dag. Spáð er hægum vindi en suðaustanstrekkingi á stöku stað á vestanverðu landinu.

Í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofunnar segir að víða verði bjart verður og hlýtt en þykkni þó upp á Suðurlandsundirlendinu og allra vestast. Sömuleiðis séu líkur á þokubökkum við austurströndina.

„Á morgun og miðvikudag er ekki miklar breytingar að sjá, en vindur verður þá heldur austlægari og líkur á þokulofti af og til við ströndina, annars víða bjart og milt.

Þegar líður á vikuna örlar á lítilsháttar vætu með S- og A-ströndinni, og um helgina gætu verið skúraleiðingar hér og þar. Heilt yfir er frekar hægur vindur í komandi viku, víða bjart og frekar hlýtt svo að sumarið er augljóslega ekki búið enn.“

Spákortið fyrir klukkan 14 í dag.Veðurstofan

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á þriðjudag og miðvikudag: Austlæg eða breytileg átt 3-8 m/s og víða bjartviðri, en sums staðar þokusúld við sjávarsíðuna. Hiti 12 til 22 stig yfir daginn, hlýjast NA-til.

Á fimmtudag: Austlæg átt 3-10 m/s, skýjað með köflum og væta með S- og A-ströndinni. Hiti breytist lítið.

Á föstudag: Norðaustanátt og þykknar upp fyrir norðan, annars bjart með köflum og víða stöku síðdegisskúrir. Hiti 10 til 18 stig, hlýjast SV-til.

Á laugardag: Hæg norðlæg eða breytileg átt og lítilsháttar væta hér og þar. Hiti svipaður.

Á sunnudag: Útlit fyrir milda suðvestanátt og skýjað veður, en bjart fyrir austan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×