Þetta er fjölskyldan mín. Hún samanstendur af tveimur mömmum, litlum strák og ketti. Við erum ekkert öðruvísi en aðrar fjölskyldur. Hafragrautur á morgnanna, gleymist að taka úr þvottavélinni endrum og eins, ömmur og afar sækja á leikskólann þegar mömmurnar eru á haus og það hanga blaut útiföt í forstofunni.
Ég var vön að fá sting í magann þegar ég las barnabækur með syni mínum og las um hinn dularfulla pabba sem ekki er til á okkar heimili. Að strákurinn minn myndi upplifa að við værum öðruvísi. En staðreyndin er sú að á sumum heimilum eru pabbi og mamma, á öðrum heimilum tveir pabbar, tvær mömmur, ein mamma, einn pabbi, tvær mömmur og einn pabbi; allskonar foreldrar og foreldrasett. Á sumum heimilum eru systkini, eldri, yngri, hálf-, stjúp-, fá eða mörg. Það er dýrmætt og mikilvægt að við fögnum þessu og fjöllum um þennan fjölbreytileika.
Fjölskyldur eru nefnilega ólíkari en bækur, myndir og sjónvarpsefni vilja vera láta, þar sem hin hefðbundna kjarnafjölskylda með mömmu, pabba og tveimur börnum ræður ríkjum. En íslenska kerfið notar kjarnafjölskylduna til eftirprentunar sem veldur fjölbreyttum fjölskyldum oft miklum vandræðum og býr til óréttlæti. Dæmi um þetta eru pappírar sem hinsegin foreldrar þurfa að skila eftir fæðingu barns til að sanna hverjir séu foreldrar þess eftir frjósemisaðstoð. Sís-gagnkynja pör sem glíma við ófrjósemisvanda þurfa þess hins vegar ekki, þó þau nýti sér sömu aðstoð hjá sama aðila. Annað dæmi er jafn aðgangur foreldra sem ekki búa saman að t.d. upplýsingum frá hinu opinbera er varða barnið og að stuðningi vegna fatlaðra og langveikra barna á heimili sem ekki telst lögheimili. Öll kerfi eru mannanna verk og þau eiga að vinna fyrir okkur.
Íslenskt samfélag er fjölbreytt og kerfið okkar þarf að taka mið af okkur sem það byggjum og fjarlægja hindranir sem fjölskyldur þurfa að klofa — ofan á allt hitt!
Höfundur er hinsegin móðir og skipar 3. sæti Samfylkingarinnar – jafnaðarmannaflokks Íslands í Suðvesturkjördæmi.