Öryggismiðstöðin heldur utan um prófin í samstarfi við rannsóknarstofuna Sameind sem hefur einnig framkvæmt svokallaðar mótefnamælingar. Fyrirtækin halda einnig úti skimunarstöð við Aðalgötu í Reykjanesbæ.
„Það hefur verið töluvert að gera. Eins og með allt þá byrjaði þetta rólega og hefur sannarlega sprungið út undanfarna mánuði;“ segir Ómar Brynjólfsson, framkvæmdastjóri AVIÖR. AVIÖR er sérstakt svið innan Öryggismiðstöðvarinnar sem sérhæfir sig í sérstakri þjónustu við flugrekstraraðila.
Ómar segir prófin ætluð þeim sem þurfa að framvísa neikvæðri niðurstöðu á landamærum , en heilsugæslan býður upp á sambærileg próf sem og PCR-próf. „Við ráðleggjum öllum sem sýna einkenni að fara í einkennasýnatöku hjá heilsugæslu, við erum ekki að taka einkennasýnatökur hér,“ segir hann.

Prófið er svokallað Antigen próf og fást niðurstöður á um fimmtán mínútum. Sóttvarnalæknir hefur haft efasemdir um prófin og segir þau ekki gefa fullkomnar niðurstöður, sérstaklega ef fólk er einkennalaust. Prófin eru hins vegar notuð víða um heim þar sem þau eru til dæmis tekin áður en fólk fer í flug eða á fjölfarna staði.
„Þetta er náttúrlega bara aukin afkastageta af hinu góða. Það er mikið ákall eftir þessum prófum alls staðar í samfélaginu þannig að það að opna fleiri staði gefur okkur bara tækifæri til að geta brugðist betur við eftirspurninni,“ segir Ómar.