Veður

Því lengra frá bænum, þeim mun betra veður

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Það verður hlýjast á Ísafirði í dag. 
Það verður hlýjast á Ísafirði í dag.  vísir/vilhelm

„Veður­spá helgarinnar er með besta móti um allt land.“ Með þeim orðum hefst dag­legur pistill veður­fræðings Veður­stofunnar. Þetta er þó alls ekki raunin því allur Suð­vestur­fjórðungur landsins, þar á meðal höfuð­borgar­svæðið, virðist missa af allri sól um helgina.

Þar verður skýjað langt fram á næstu viku, sam­kvæmt spá­korti Veður­stofunnar, og með kaldara móti um helgina þegar miðað er við önnur svæði landsins. Hitinn á Suð­vestur­landi og Vestur­landi verður í kring um 11 til 13 stig að jafnaði en getur á ein­staka stað náð um 15 til 16 stigum.

Þá má búast við ein­hverri vætu í lands­fjórðungnum eftir há­degi í dag.

Veðurspáin klukkan 16 í dag. Glöggir sjá að veður er aðeins með besta móti á hluta landsins.veðurstofa íslands

Annars staðar á landinu er veður­spáin hins vegar sannar­lega með besta móti. Í dag verður hlýjast á Vest­fjörðum þar sem gert er ráð fyrir rúm­lega tuttugu stiga hita og glampandi sól.

Á norður- og austur­hluta landsins verður einnig glampandi sól og lítill sem enginn vindur. Það blíð­viðri virðist ná alveg fram yfir frí­dag verslunar­manna en síðan þykknar upp á öllu landinu í næstu viku.

Veðrið virðist því sniðið að stærstu ferðahelgi ársins og virðist um það gilda að því lengra sem fólk hefur náð að koma sér frá höfuðborgarsvæðinu fyrir helgina því betur sé það statt. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×