Handbolti

Þriðja tapið í röð hjá liðum Dags og Arons

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dagur Sigurðsson ræðir við sína menn í japanska landsliðinu.
Dagur Sigurðsson ræðir við sína menn í japanska landsliðinu. EPA-EFE/WU HONG

Lærisveinar íslensku þjálfaranna Dags Sigurðssonar og Aron Kristjánssonar hafa enn ekki ná að fagna sigri í handboltakeppni Ólympíuleikanna í Tókýó.

Bæði liðin töpuðu þriðja leiknum sínum í röð í nótt og eru nú einu liðin í B-riðli sem hafa ekki fengið stig.

Barein, lið Arons, tapaði með tíu marka mun á móti Dönum, 31-21, eftir að hafa verið fimm mörkum undir í hálfleik, 12-7. Barein hafði tapað fyrstu tveimur leikjum sínum með eins marks mun en fékk nú skell.

Heimsmeistarar Dana hafa unnið alla þrjá leiki sína og það með meira en tíu mörkum að meðaltali í leik. Svíar eru einnig með fullt hús eftir 29-28 sigur á Portúgal í nótt.

Japanir töpuðu með fjögurra marka mun á móti Egyptalandi, 33-29, eftir að hafa verið sjö mörkum undir í hálfleik, 18-11. Egyptar töpuðu á móti Dönum en hafa unnið hina tvo leiki sína á móti Japan og Portúgal.

Japanska liðið náði ekki alveg að fylgja eftir góðum öðrum leik sínum þar sem liðið stóð í liði Svía og tapaði á endanum aðeins með tveggja marka mun. Japanska liðið barðist þó allan tímann en Egyptar voru bara of sterkir.

Tveir leikir eru eftir í riðlinum og fjögur af sex liðum komast áfram í átta liða úrslitin. Vonin er því ekki úti þótt hún sé veik.

Barein og Japan mætast í næstu umferð en síðan á Barein eftir að mæta Egyptalandi á meðan Japan spilar við Portúgal. Sigur í síðustu tveimur leikjunum myndi væntanlega koma liðum Dags og Arons í átta liða úrslitin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×