Liðin mættust á SaltPay-vellinum á Akureyri en bæði lið hafa verið á mikilli siglingu að undanförnu. Fram hefur enn ekki tapað leik í sumar og var fyrir leikinn á toppi deildarinnar með 32 stig af 36 mögulegum, sex á undan ÍBV í öðru sæti. Þórsarar sátu í sjötta sæti með 19 stig og höfðu leikið sex leiki í röð án taps.
Það fær hins vegar fátt Framara stöðvað þessa dagana og buttu þeir enda á taplausa hrinu Norðanmann með 2-0 sigri. Alexander Már Þorláksson skoraði sitt fyrsta mark í sumar er hann kom Fram yfir með skalla eftir hornspyrnu undir lok fyrri hálfleiks.
Tvíburabróðir hans, Indriði Áki Þorláksson, skoraði svo síðara mark Framara undir lok þess síðari eftir að Skagamaðurinn Albert Hafsteinsson hafði sent hann í gegn.
Fram er því með 35 stig á toppi deildarinnar eftir 13 leiki, níu stigum á undan ÍBV sem hefur einnig spilað 13 leiki, og 13 stigum á undan Kórdrengjum í þriðja sætinu sem eiga leik inni.
Þór er sem fyrr í sjötta sæti með 19 stig.