Erlent

Fórst eftir að hafa kastað barni sínu í öruggt skjól

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Stúlkunni var bjargað sólarhring eftir að aurskriða féll á heimili hennar.
Stúlkunni var bjargað sólarhring eftir að aurskriða féll á heimili hennar. Skjáskot

Kona sem kastaði barni sínu í öruggt skjól rétt áður en aurskriða féll á heimili hennar í Kína er dáin. Barnungri dóttur hennar var bjargað af björgunarsveitarmönnum á miðvikudag, sólarhring eftir að aurskriðan féll á heimilið.

Úrhellisrigning hefur orsakað hamfaraflóð í miðju Kína undanfarna daga og féll aurskriða á bæinn Wangzongian í Henen héraði í gær vegna úrhellisins. Sérfræðingar segja að meiri rigningar hafi ekki fallið í Kína í þúsund ár og segja að rigningarnar sem hafi fallið samsvari rigningum sem falla í venjulegu árferði á heilu ári.

Samkvæmt frétt breska ríkisútvarpsins hafa minnst 51 farist í flóðunum og 400 þúsund hafa þurft að flýja heimili sín.

Myndband af björguninni hefur farið eins og eldur í sinu um netmiðla í Kína. Talið er að stúlkan sé þriggja eða fjögurra mánaða gömul.

„Ég heyrði barnið gráta og stuttu síðar voru björgunaraðilar mættir og náðu að bjarga barninu. Henni hafði verið kastað upp í rjáfur af móður hennar,“ sagði fjölskyldumeðlimur stúlkunnar í samtali við staðarmiðil í Kína.

Brunað var með stúlkuna á sjúkrahús en hún reyndist ómeidd. Lík móður hennar fannst í gær og segja björgunaraðilar í samtali við Beijing Youth Daily að lík hennar hafi verið frosið í stellingu eins og hún hafi verð að lyfta einhverju upp fyrir höfuð sér.


Tengdar fréttir

Þúsundir í sjálfheldu án drykkjarvatns

Þúsundir eru í sjálfheldu í miðhluta Kína vegna hamfaraflóða síðustu daga. Minnst 33 hafa farist í flóðunum en talið er að enn fleiri muni finnast látnir þegar björgunarsveitum tekst að komast að vegum og göngum sem hafa verið á floti undanfarna viku.

Mikil hræðsla þegar lestarvagn fylltist af flóðvatni

Mikil hræðsla greip um sig í neðanjarðarlestarkerfi Zhengzhou, höfuðborg Henan-héraðs, í gær þegar vatn tók að flæða stjórnlaust inn í vagna í kjölfar gríðarmikilla flóða af völdum gífurlegrar rigningar undanfarna daga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×