Sport

Dæmdur í ævilangt bann eftir að hafa kastað hafnabolta í leikmann

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Reiður stuðningsmaður kastaði hafnabolta í Alex Verdugo.
Reiður stuðningsmaður kastaði hafnabolta í Alex Verdugo. getty/Rich Schultz

Stuðningsmaður New York Yankees sem kastaði hafnabolta í Alex Verdugo, leikmann Boston Red Sox, hefur verið dæmdur í ævilangt bann frá leikjum í MLB-deildinni.

Stuðningsmaðurinn kastaði boltanum í Verdugo í leik Red Sox og Yankees á heimavelli síðarnefnda liðsins á laugardaginn. Yankees vann leikinn, 3-1.

Verdugo var eðlilega ósáttur og öskraði á stuðningsmanninn sem var rekinn út af vellinum. Hann var þó ekki handtekinn.

Þetta reyndist samt vera síðasti leikurinn sem hann fer á í MLB-deildinni en hann má ekki mæta á leiki í deildinni svo lengi sem hann lifir.

Verdugo slapp ómeiddur og sneri aftur inn á völlinn. „Ég er bara ánægður að það er í lagi með Verdugo. Þetta var ekki gott fyrir leikinn og fólkið hérna. Ég veit hversu illa því líður. Vonandi er þetta í síðasta sinn sem eitthvað svona gerist,“ sagði Alex Cora, þjálfari Red Sox, eftir leikinn.

Kollegi hans hjá Yankees, Aaron Boone, fordæmdi framkomu stuðningsmannsins. „Þetta er hræðilegt, vandræðalegt og óásættanlegt,“ sagði hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×