Saksóknarar hafa farið fram á að Paul Allard Hodgkins verði dæmdur í átján mánaða fangelsi og segja hann, ásamt öðrum sem tóku þátt í árásinni hafa ógnað bandarísku lýðræði.
Stuðningsmenn Trumps ruddu sér leið inn í þinghús Bandaríkjanna þann 6. janúar, með því markmiði að koma í veg fyrir að þingið staðfesti niðurstöður forsetakosninganna í fyrra, sem Joe Biden vann og Trump tapaði.
AP fréttaveitan segir að dómur Hodgkins gæti lagt línurnar fyrir réttarhöld yfir hundruðum annarra sem hafa verið ákærð vegna árásarinnar. Hodgkins lýsti yfir sekt sinni í síðasta mánuði fyrir að reyna að koma í veg fyrir opinbera athöfn. Hann var ekki sakaður um að ráðast á einhvern eða valda skemmdum.
Verjandi Hodgkins hefur farið fram á að hann verði ekki dæmdur til fangelsisvistar, á þeim grundvelli að skömmin sem muni fylgja honum alla ævi ætti að duga til sem refsing.
Kona sem heitir Anna Morgan Lloyd hlaut dóm í síðustu viku vegna árásarinnar en hún var þó ekki dæmd fyrir glæp. Þess í stað játaði hún lítils háttar brot og var dæmd í þriggja ára skilorð.