Erlent

Eif­fel-turninn opnaður á ný

Elma Rut Valtýsdóttir skrifar
Eiffel-turninn í París hefur verið opnaður á ný eftir lengstu lokun hans síðan í Seinni heimsstyrjöldinni.
Eiffel-turninn í París hefur verið opnaður á ný eftir lengstu lokun hans síðan í Seinni heimsstyrjöldinni. Getty/Chesnot

Einn allra vinsælasti ferðamannastaður Frakklands, Eiffel turninn í París, var opnaður að nýju í dag eftir níu mánaða lokun vegna kórónuveirufaraldursins. Turninn var opnaður þrátt fyrir að sóttvarnaraðgerðir hafi verið hertar nokkuð í vikunni vegna Delta-afbrigðisins.

Fyrir faraldurinn voru erlendir ferðamenn átta af tíu þeirra sem komu í turninn, en á síðasta ári voru heimamenn í meirihluta. 

Fyrstu gestirnir í dag voru himinlifandi með heimsóknina. Philippe Duval, ferðamaður frá Bordeaux, var meðal þeirra fyrstu til þess að fara upp á þriðju hæð turnsins í dag og sagði hann því fylgja miklar tilfinningar.

„Við erum mjög ánægð og stolt. Að vera fyrir ofan fallegustu borg í heimi, hvað getur maður beðið um meira?“

Gestum gert að framvísa vottorði

Leyfilegur fjöldi gesta í turninum verður þó helmingi færri en venjulega eða 13 þúsund manns til þess að hægt verði að framfylgja nándarreglunni.

Þá verður gestum turnsins gert að framvísa bólusetningarvottorði eða neikvæðu PCR prófi frá og með miðvikudeginum í næstu viku.

Patrick Branco Ruvio, framkvæmdastjóri Eiffel-turnsins, var tilfinningaríkur við opnun turnsins í dag. En um er að ræða lengstu lokun turnsins síðan í Seinni heimsstyrjöldinni.

„Við höfum unnið gríðarlega mikið og þegar ég sá fyrsta gestinn varð ég mjög hamingjusamur,“ sagði Ruvio.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×