Golf

Tvífari kylfusveins Happys Gilmore fékk fyrsta örninn á Opna breska

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Will Zalatoris fékk örn á 12. holu á Royal St George’s golfvellinum sem Opna breska meistaramótið fer fram á.
Will Zalatoris fékk örn á 12. holu á Royal St George’s golfvellinum sem Opna breska meistaramótið fer fram á. getty/Charlie Crowhurst

Bandaríkjamaðurinn ungi Will Zalatoris fékk fyrsta örninn á Opna breska meistaramótinu í golfi í ár.

Zalatoris fékk örninn (tvö högg undir pari) á 12. holu sem er par fjögur hola. Hann átti þá glæsilegt högg og boltinn endaði ofan í holunni eins og sjá má hér fyrir neðan.

Zalatoris, sem er 24 ára, skaust fram á sjónarsviðið þegar hann endaði í 2. sæti á Masters mótinu í apríl á þessu ári. Hann lék þá á níu höggum undir pari og var aðeins einu höggi á eftir sigurvegaranum, Hideki Matsuyama.

Hann vakti ekki bara athygli fyrir góða frammistöðu á Masters heldur einnig fyrir það hversu líkur hann er kylfusveini Happys Gilmore í samnefndri gamanmynd frá 1996.

Adam Sandler, sem lék Happy Gilmore, sendi Zalatoris meðal annars skilaboð á meðan á Masters stóð. Zalatoris svaraði þeim og sagðist ávallt til þjónustu reiðubúinn fyrir Happy Gilmore.

Þegar þetta er skrifað er Zalatoris á tveimur höggum undir pari á Opna breska, þremur höggum á eftir efstu mönnum, Jordan Spieth og Louis Oosthuzien. Auk arnarins hefur Zalatoris fengið fjóra fugla á fyrstu þrettán holunum.

Fylgjast má með Opna breska í beinni útsendingu á Stöð 2 Golf. Útsendingartíma má sjá hér.


Öll stærstu golfmótin eru á Stöð 2 Golf en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Stöð 2 Golf kostar 3.990 krónur á mánuði en er einnig hluti af Sportpakkanum. Helgarpassa að Stöð 2 Golf má kaupa á kerfum Vodafone.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×