Erlent

Herða tak­markanir í Frakk­landi en bara fyrir óbólu­­setta

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Macron flutti sjónvarpsávarp þar sem hann kynnti fyrirhugaðar aðgerðir sínar.
Macron flutti sjónvarpsávarp þar sem hann kynnti fyrirhugaðar aðgerðir sínar. Getty/Chesnot

Emmanuel Macron Frakk­lands­­for­­seti hefur kynnt hertar að­gerðir í landinu til að koma í veg fyrir aðra bylgju far­aldursins. Þær munu einungis ná til þeirra sem ekki eru bólu­settir. Hann ætlar einnig að skylda alla heil­brigðis­starfs­menn í landinu til að fara í bólu­setningu.

Fram­vegis verður fólk að sýna fram á ó­næmis­vott­orð eða nei­kvætt Co­vid-19 próf til að komast inn á flesta fjölmenna staði og viðburði.

Hið svo­nefnda Delta-af­brigði veirunnar hefur dreift sér hratt í Frakk­landi.

Opnuðu skemmtistaði

Að­gerðirnar kynnti Macron að­eins þremur dögum eftir að skemmti­stöðum var leyft að opna aftur í Frakk­landi. Margir túlkuðu þá opnun sem mikil tíma­mót í bar­áttunni við veiruna og töldu að tímum tak­markana og lokana væri nú lokið í landinu.

Macron á­varpaði þjóðina síðan í sjón­varpinu þar sem hann brýndi mikil­vægi bólu­setninga fyrir Frökkum. Þar kvaðst hann ætla að inn­leiða nýja lög­gjöf sem skyldaði alla heil­brigðis­starfs­menn til að vera búnir að láta bólu­setja sig fyrir 15. septem­ber næst­komandi.

Mark­miðið nú væri að inn­leiða tak­markanir sem næðu að­eins til óbólu­settra en ekki til allra.

Frá og með 21. júlí verða því allir sem vilja komast inn á menningar­við­burði eða í skemmti­garða að sýna fram á vott­orð og í ágúst munu fleiri staðir krefjast þess sama af gestum sínum, til dæmis veitinga­staðir, verslunar­mið­stöðvar, spítalar, öldrunar­heimili og al­mennings­sam­göngur sem fara langar leiðir.

Einnig hyggjast frönsk stjórn­völd fara að rukka fyrir PCR-próf en þau hafa hingað til verið gjald­frjáls.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×