Innlent

Ferða­menn fylgist með veður­spá næstu daga

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Stykkishólmur er á norðanverðu Snæfellsnesi, hvar nokkuð vindasamt gæti orðið í dag.
Stykkishólmur er á norðanverðu Snæfellsnesi, hvar nokkuð vindasamt gæti orðið í dag. Vísir/Vilhelm

Suðlægar og suðvestlægar áttir munu ráða ríkjum hér á landi, og valda vætu á sunnan- og vestanverðu landinu í dag. Áfram má gera ráð fyrir ágætisveðri á Norður- og Austurlandi, þar sem verður úrkomulítið og talsvert sólskin með tilheyrandi hlýindum.

Þetta kemur fram í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands. Þar segir að um helgina eigi víða að lægja og draga úr vætu. Áfram verði hlýtt í flestum landshlutum og því ekki loku fyrir það skotið að viðra muni vel til ferðalaga.

Ferðamönnum er þó sérstaklega bent á að búast megi við hviðóttum vindi á norðanverðu Snæfellsnesi síðar í dag og í Mýrdal og Öræfum á morgun.

„Þeir sem aka með aftanívagna um fyrrnefnd svæði ættu því að fylgjast vel með veðri næstu tvo sólarhringa.“

Veðurhorfur á landinu næstu daga:

Á miðvikudag:

Suðvestlæg átt, 8-15 m/s, hvassast syðst og víða skúrir, einkum þó V-til. Hiti 8 til 17 stig, hlýjast fyrir austan.

Á fimmtudag og föstudag:

Sunnan og suðvestan 5-13 m/s og rigning eða súld með köflum, en léttskýjað NA-til. Hiti 10 til 20, hlýjast eystra.

Á laugardag:

Hæg vestlæg eða breytileg átt, skýjað með köflum og smá skúrir á víð og dreif. Hiti 10 til 19 stig, hlýjast SA-lands.

Á sunnudag og mánudag:

Hægir vindar, víða bjart og hlýtt veður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×