Fyrir ferðamenn og þá sem gera út á eldgosið var þetta himnasending aðfararnótt laugardags þegar gígurinn fór aftur að spúa eldi og eimyrju eftir fjögurra daga goshlé. Bjartviðri var á svæðinu á laugardag, eins og sjá mátti í fréttum Stöðvar 2, og fékkst þá góð sýn af Langahrygg, sem orðinn er vinsælasti útsýnisstaðurinn.

Þangað er um klukkustundar gangur frá bílastæðum við Suðurstrandarveg um gönguleið C. Í góðu skyggni sést þaðan vel yfir á gígopið en einnig yfir hraunbreiðurnar.
Þyrluflugið tók einnig við sér þegar birti til og mátti sjá þrjár til fjórar þyrlur samtímis á sveimi yfir gosstöðvunum, bæði frá þyrluflugfélögum og Landhelgisgæslunni.

Gæsluþyrlan flutti liðsmenn úr eldfjalla- og náttúruvárhópi Háskóla Íslands á svæðið og tóku þeir þessar drónamyndir af gígnum til að gera úttekt á virkni hans. Jóna Sigurlína Pálmadóttir meistaranemi stýrði flugi drónans.
Myndirnar sýna vel kraumandi hrauntjörnina en einnig hvernig hraunelfan rennur frá gígnum um göng. Þaðan flæddi hraunáin á talsverðum hraða til austurs niður í Meradali en þar ógnar hraunið engum mannvirkjum.

Erlendir ferðamenn virðast núna vera yfirgnæfandi í hópi gosferðalanga. Íslendingar sem voru á svæðinu giskuðu á að útlendingar væru um níutíu prósent gesta og mátti heyra þá hrópa af hrifningu þegar kvikustrókarnir þeyttust til himins.
Lítið hefur sést til gossins í dag vegna þoku en óróamælir Veðurstofunnar á Fagradalsfjalli sýnir að það hefur haldið svipuðum takti í dag og var um helgina.

Samkvæmt teljurum voru um þrjú þúsund manns á staðnum á laugardag og litlu færri á sunnudag. Svo virðist sem slæmt skyggni breyti litlu um fjölda útlendinga. Þeir láta sér þá bara nægja að skoða nýja hraunið í Nátthaga en þangað er innan við hálftíma gangur frá þjóðveginum.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: