Erlent

Vara við taugasjúkdómi sem aukaverkun af bóluefni Janssen

Árni Sæberg skrifar
Janssen er í eigu bandaríska fyrirtækisins Johnson & Johnson.
Janssen er í eigu bandaríska fyrirtækisins Johnson & Johnson. Artur Widak/NurPhoto via Getty

Matvæla- og lyfjaeftirlit Bandaríkjanna hefur ákveðið að bæta taugasjúkdóminum Guillain-Barré á lista yfir mögulegar aukaverkanir af notkun bóluefnis Janssen. Eftirlitið segir þó að líkur á að fá sjúkdóminn séu mjög litlar.

Rannsókn Matvæla- og lyfjaeftirlits Bandaríkjanna hefur leitt í  ljós að um hundrað manns hafa fengið taugasjúkdóminn Guillain-Barré eftir að hafa verið bólusettir með bóluefni Janssen.

Ljóst er að líkur á að fá sjúkdóminn eru mjög litlar þar sem ógrynni fólks hefur fengið bóluefnið. Þó er fjöldi þeirra sem fengið hafa sjúkdóminn eftir bólusetningu um þrisvar til fimm sinnum meiri en gegnur og gerist.

Matvæla- og lyfjaeftirlit Bandaríkjanna mun því bæta Guillain-Barré á lista yfir mögulegar aukaverkanir á fylgiseðli með bóluefninu.

Guillain-Barré er taugasjúkdómur sem veldur því að ónæmiskerfi líkamans hafnar úttaugakerfinu. Afleiðingar þess eru allt frá eymslum í vöðvum til lömunar öndunarfæra.

Langflestir sem fá Guillain-Barré sjúkdóminn jafna sig af honum. Þó hefur Matvæla- og lyfjaeftirliti Bandaríkjanna borist ein tilkynning um andlát af völdum sjúkdómsins í kjölfar bólusetningar með bóluefni Janssen. Um var að ræða mann á sextugsaldri sem hafði glímt við margþættan heilsuvanda undanfarin ár.

„Það kemur ekki á óvart að sjá svona slæmar afleiðingar af bólusetningum,“ segir Dr. Luciana Borio, fyrrum yfirvísindamaður Matvæla- og lyfjaeftirlits Bandaríkjanna, í samtali við The New York Times. Hún bætir þó við að kostir bólusetninga haldi áfram að vega mun þyngra á metunum en mögulegir ókostir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×