Innlent

Kjósendur VG afgerandi á móti frekara ríkisstjórnarsamstarfi

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Aðeins tæpur þriðjungur kjósenda VG sem svöruðu könnuninni sagðist hlynntur áframhaldandi ríkisstjórnarsamstarfi. Afstaðan er allt önnur meðal kjósenda hinna ríkisstjórnarflokkanna tveggja. Grænu súlurnar tákna hlutfall kjósenda sem eru hlynntir samstarfinu eftir kosningar en rauðu þá sem eru mótfallnir því.
Aðeins tæpur þriðjungur kjósenda VG sem svöruðu könnuninni sagðist hlynntur áframhaldandi ríkisstjórnarsamstarfi. Afstaðan er allt önnur meðal kjósenda hinna ríkisstjórnarflokkanna tveggja. Grænu súlurnar tákna hlutfall kjósenda sem eru hlynntir samstarfinu eftir kosningar en rauðu þá sem eru mótfallnir því. Ragnar Visage

Rúm sjötíu prósent kjósenda Vinstri grænna eru mótfallin áframhaldandi ríkisstjórnarsamstarfi VG, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks eftir alþingiskosningar 25. september, samkvæmt könnun Maskínu sem gerð var fyrir fréttastofu dagana 14. til 22. júní. Aðeins tæpur þriðjungur, eða 29 prósent, kjósenda VG er fylgjandi frekara samstarfi.

Stuðningsmenn VG eru þannig á öndverðum meiði við stuðningsmenn hinna flokkanna. Samkvæmt könnuninni styðja 88 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokks áframhaldandi samstarf eftir kosningar og 82 prósent kjósenda Framsóknar.

Heilt yfir segjast 46,4 prósent svarenda vilja að ríkisstjórnarsamstarfið haldi áfram en 53,6 prósent eru því mótfallin. Þá eru konur aðeins hlynntari samstarfinu en karlar; 48 prósent kvenna vilja ríkisstjórnina áfram en 45 prósent karla. 

Tekjulægstir og Reykvíkingar vilja ríkisstjórnina burt

Þegar litið er til búsetu eru íbúar í nágrannasveitarfélögum Reykjavíkur, sem og íbúar á Suðurlandi og Reykjanesi, hlynntastir áframhaldandi ríkisstjórnarsamstarfi eða rétt tæp 53 prósent á báðum svæðum. Íbúar í Reykjavík eru neikvæðastir; tæp 58 prósent aðspurðra Reykvíkinga vilja ekki að ríkisstjórnin haldi áfram á nýju kjörtímabili.

Þá eru tæp 70 prósent tekjulægsta hópsins, þ.e. með mánaðartekjur undir 400 þúsund krónum, andvíg áframhaldandi samstarfi ríkisstjórnarinnar en þegar litið er til tekna er sá hópur áberandi neikvæðastur í garð samstarfsins eftir kosningar. Svarendur með næsthæstu tekjurnar, þ.e. mánaðartekjur á bilinu ein milljón til 1,199 milljónir, eru jákvæðastir; tæp 55 prósent vilja ríkisstjórnina áfram á næsta kjörtímabili, samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×