Þrír hafa greinst með kórónuveiuruna innanlands frá því síðustu tölur um faraldurinn hér á landi voru gefnar út á mánudag. Tveir greindust á mánudag og voru í sóttkví. Þá greindist einn í gær, en þá var um að ræða barn undir tólf ára aldri, sem var utan sóttkvíar við greiningu.
Bólusetningar barna á aldrinum tólf til fimmtán ára eiga að óbreyttu að hefjast í haust, þegar skólastarfsemi hefst að nýju. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að það hefði litlu breytt ef bólusetning þess aldurshóps hefði verið hafin, enda ekkert bóluefni komið með markaðsleyfi fyrir börn undir tólf ára aldri.
„Það sem við erum að skoða núna er hvað eru margir að greinast með smit sem eru að koma frá útlöndum, hvort þeir eru bólusettir eða ekki og hvort þeir eru að smita eitthvað frá sér hér innanlands. Sem betur fer er það fátítt, við erum ekki með mörg smit núna á síðustu tveimur vikum,“ segir Þórólfur.

Hann segir að búast megi við því áfram að fólk sem hefur verið í samskiptum við smitaða einstaklinga verði sent í sóttkví, óháð því hvort það er bólusett eða ekki.
„Ef það hefur verið mikill samgangur við þann sem er að greinast. Við höldum því áfram. Við erum áfram að setja fólk í sóttkví og einangrun eins og við höfum gert áður. Það er eina ráðið til þess að halda vel utan um það sem er að gerast.“