Erlent

Tvö látin og nítján saknað eftir aurskriðu í Japan

Árni Sæberg skrifar
Eyðileggingin er mikil í Atami eftir aurskriðuna.
Eyðileggingin er mikil í Atami eftir aurskriðuna. EPA/EFE

Aurskriða féll á bæinn Atami í Japan í morgun og olli mikilli eyðileggingu. 

Aurskriðan hreif með sér mikinn fjölda húsa og um 2.800 heimili eru án rafmagns. 

Viðbragðsaðilar hafa hingað til fundið tvö lík í rústunum og nítján er enn saknað.

Mikil rigning hefur verið í Japan undanfarið og í Atami hefur meiri úrkoma fallið á fyrstu þremur dögum mánaðarins en fellur venjulega allan júlí.

Veðurstofa Japans hefur lýst yfir hættuástandi vegna rigningar en úrkomumet hafa fallið í tugum bæja og borga í landinu á dögunum.

Þá hefur Yoshihide Suga, forsætisráðherra Japans, sett saman viðbragðshóp sem ætlað er að takast á við aurskriðuna og hættustandið sem rigningin veldur.

Yoshiharu Ishikawa, sérfræðingur í aurskriðum við háskóla í Tókýó, segir að hætta verði á fleiri aurskriðum á svæðinu, burtséð frá því hvort stytti upp eður ei.

Óttast er að hnattræn hlýnun valdi því að náttúruhamförum á borð við aurskriður fjölgi og að þær valdi meiri eyðileggingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×