„Óróinn fór að aukast aftur með kvöldinu og er farinn að ná sér eins og hann var í morgun. Það er farið að sjást svolítið í rauða glóð og mikið gas stígur þarna upp. Við erum búin að sjá smá spýjur þarna upp úr gígnum, þannig að það er farið að aukast aðeins aftur,“ segir Sigurdís Björg Jónasdóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands í samtali við fréttastofu.
Gosórói féll líka niður á mánudagskvöld og aðfaranótt þriðjudags og lá órói þá niðri í nokkrar klukkustundir áður en eldstöðin tók við sér og sjá mátti öflugar hraungusur flæða yfir gígbarmana í fyrrakvöld.
Hægt er að fylgjast með gosinu, og sjá hraunspýjurnar, í vefmyndavél Vísis á Fagradalsfjalli hér að neðan.