Innlent

75 konur fæddu heima árið 2019 og sjö á leiðinni á fæðingarstað

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Fyrirfram ákveðnar heimafæðingar voru 70 en fjórar konur fæddu óvænt heima.
Fyrirfram ákveðnar heimafæðingar voru 70 en fjórar konur fæddu óvænt heima.

Alls fæddust 4.454 börn í 4.385 fæðingum á Íslandi árið 2019. Um er að ræða fjölgun miðað við síðustu ár en árið 2016 höfðu fæðingar ekki verið jafnfáar síðan árið 2002.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í skýrslu fæðingarskráningar 2019.

Á Landspítala fóru fram 3.207 fæðingar, eða um 73 prósent allra fæðinga á landinu. Níu prósent fæðinga fóru fram á Sjúkrahúsinu á Akureyri og átta prósent fæðinga á Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Akranesi.

Um 2,5 prósent fæðinga fóru fram á öðrum stöðum, þar af 64 á fæðingarstofunni Björkinni. Sjö konur fæddu á leið á fæðingarstað og 75 konur fæddu heima.

Alls fæddu 69 konur fleiri en eitt barn í sömu fæðingu árið 2019, þar af 40 fyrir tímann.

53 konur fætt á leiðinni á fæðingarstað

Hundrað og fimmtíu konur, eða 4,1 prósent, hlutu þriggja eða fjórðu gráðu spangarrifu, en það er þegar rifan nær niður í vöðvalag hringvöðvans í kringum endaþarm. Tíðnin var aðeins 1,7 prósent á Heilbrigðisstofnun Vesturlands, sem talið er mega rekja til átaks í spangarstuðningi.

Klippt var á spöngina hjá 380 konum.

Alls eignuðust 710 konur börn sín með keisaraskurði, þar af 428 eftir bráðakeisara. Sogklukku var beitt í 313 tilvikum og töngum í fjórtán fæðingum.

Í skýrslunni segir að 33 konur hófu fæðingu í Björkinni en voru fluttar á Landspítala. Algengasta ástæða flutnings var langdregið fyrsta stig fæðingar og ósk móður um mænudeyfingu. 

Fyrirfram ákveðnar heimafæðingar voru 70 en fjórar konur fæddu óvænt heima. Alls hófu 85 konur heimafæðingu en flytja þurfti 15 á sjúkrahús. Eins og fyrr segir fæddu sjö konur á leiðinni á fæðingarstað en á síðustu tíu árum hefur 53 fæðingar borið að með þeim hætti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×