Guðný Steinsdóttir, markaðsstjóri MS, segir að þetta snúist um matarsóun og hvatningu til neytenda til að draga úr henni eins og kostur er.
„Við erum ekki að lofa því að mjólkin sé alltaf góð lengur – en bendum á að hún sé oft góð lengur,“ segir Guðný í svari til Vísis.
Merkingin best fyrir merki í raun lágmarksgeymsluþol matvæla og gefi frekar til kynna gæði en öryggi matvæla.
„Matvörur sem eru merktar með „best fyrir“ eru oftast í lagi eftir þá dagsetningu svo lengi sem lykt og bragð er í lagi og ef varan hefur verið geymd rétt,“ segir Guðný.
Guðný segir að merkingar á borð við þessar hafi gefið góða raun í nágrannalöndum. Munur sé á merkingum um „best fyrir“ og „síðasta notkunardag“, en hið síðarnefnda er fremur notað á vörum sem eru viðkvæmari fyrir örveruvexti. Stranglegar er mælt með því að fylgja slíkum tilmælum en „best fyrir“-tilmælum, eins og lesa má um hér.