Golf

Átta holu um­­­spil þurfti til á PGA móta­röðinni í nótt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Harris English virðir fyrir sér bikarinn eftir sigur sinn í nótt.
Harris English virðir fyrir sér bikarinn eftir sigur sinn í nótt. AP/John Minchillo

Bandaríkjamaðurinn Harris English fagnaði í nótt sigri á Travelers Championship á PGA mótaröðinni í golfi.

English fór ekkert í felur með það að hann var þreyttur í höndunum eftir að hafa spilað 26 holur og alls í sex og hálfan tíma á lokadeginum.

Það þurfti nefnilega átta holu bráðabana til að skera út um sigurvegara á mótinu og slíkt hefur aðeins gerst fimm sinnum í sögunni. Metið er reyndar ellefu holu umspil en þá, árið 1949, sættust menn á jafntefli því það var komið of mikið myrkur til að halda.

English og Kramer Hickok voru báðir á þrettán undir pari eftir 72 holur og því þurfti umspil. Þar gekk eins og áður sagði afar illa að fá sigurvegara þar sem þeir skiptust á að spila sautjándu og átjándu holuna.

„Það var erfitt að halda einbeitingunni,“ sagði Harris English en bætti við: „Ég tek samt ofan fyrir honum fyrir góða baráttu,“ sagði English.

Báðir spiluðu þeir fyrstu sjö holurnar á pari en á endanum setti English niður um fimm metra pútt og tryggði sér sigurinn.

„Við vorum báðir að grínast með það að annar hvor okkur þyrfti nú að fara á ná fugli. Ég var í færi nokkrum sinnum en náði loksins að lesa það rétt,“ sagði English.

Þetta var annar sigur English á þessu tímabili og sá fjórði á ferlinum á PGA-mótaröðinni. English náði að fylgja eftir flottri spilamennsku sinni á Opna bandaríska mótinu á dögunum þar sem hann náði þriðja sætinu.

English fékk 1,368 milljónir dollara í verðlauna fé eða meira en 169 milljónir íslenskra króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×