Innlent

Segir kerfið virðast svo stíft að það taki yfir læknis­fræðina

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Þorbjörn er gagnrýninn á að Samhæfingarmiðstöð krabbameinsskimana hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins geti neitað beiðnum kvensjúkdómalækna um að taka sýni til rannsóknar.
Þorbjörn er gagnrýninn á að Samhæfingarmiðstöð krabbameinsskimana hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins geti neitað beiðnum kvensjúkdómalækna um að taka sýni til rannsóknar. Vísir/Nanna

Fyrrverandi formaður Læknafélags Íslands vill að læknar fái ákveða sjálfir hvort leghálssýni sjúklinga þeirra verði tekin til rannsóknar eða ekki. Hann segir kerfið alltof stíft og farið að taka yfir læknisfræðina.

Vísir birti í dag viðtal við konu sem greindist með frumubreytingar í leghálsi á síðasta ári. Kvensjúkdómalæknir hennar tók sýni fyrir mánuði síðan og sendi til rannsóknar en Samhæfingarmiðstöð krabbameinsskimana svaraði því ekki væri liðið ár frá síðustu sýnatöku, og því samræmdist það ekki skimunarleiðbeiningum landlæknis að taka það til rannsóknar.

Þorbjörn Jónsson, fyrrverandi formaður Læknafélags Íslands, segir að svo virðist sem kerfið sé orðið svo stíft að það taki læknisfræðina sjálfa yfir. Hann segir margar ástæður geta verið fyrir því að kvensjúkdómalæknar ákveði að taka leghálssýni til rannsóknar, þó það kunni að stangast á við leiðbeiningar landlæknisembættisins.

„Það horfir einkennilega við manni að síðan sé það niðurstaðan að rannsóknin sé ekki gerð og sýninu hent.“

Þorbjörn bendir á að svör samhæfingarmiðstöðvarinnar séu byggð á leiðbeiningarreglum, sem hljóti eðli málsins samkvæmt að eiga að vera leiðbeinandi, en ekki algildar. Sjúklingar geti átt mismunandi sjúkrasögu, ættarsögu eða aðra hluti sem spila inn í ákvörðun læknis um að taka sýni.

„Það getur aldrei orðið einhver allsherjarregla sem er án undantekninga, vegna þess að hver sjúklingur er raunverulega einstakur,“ segir Þorbjörn.

Málið snúist í grunninn um hvort ábyrgðin eigi að liggja hjá landlæknisembættinu eða lækni sem sjúklingur hefur valið að leita til í hverju tilfelli.

„Í mínum huga þá er það náttúrulega klárt að það hlýtur alltaf að verða sá læknir sem hefur mest vægi í svona máli, því að leiðbeiningar geta ekki verið án undantekninga.“

Fréttastofa hafði samband við stjórnendur hjá Krabbameinsfélaginu, sem könnuðust ekki við að Leitarstöð félagsins hefði nokkurn tímann neitað að rannsaka sýni frá kvensjúkdómalæknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×