Erlent

Nokkrir látnir í hnífaárás í Þýskalandi

Kjartan Kjartansson skrifar
Lögreglumenn standa vörð við borða sem var strengdur í kringum vettvanginn í miðborg Würzburg í dag.
Lögreglumenn standa vörð við borða sem var strengdur í kringum vettvanginn í miðborg Würzburg í dag. Vísir/EPA

Að minnsta kosti þrír eru sagðir látnir og sex særðir eftir að karlmaður á þrítugsaldri gekk þar berserksgang með stóru eggvopni í borginni Würzburg í sunnanverðu Þýskalandi í dag. Árásarmaðurinn var handtekinn.

Breska ríkisútvarpið BBC segir að myndskeið sem voru birt á samfélagsmiðlum sýni vegfarendur og lögreglumenn yfirbuga árásarmanninn. Maðurinn sem var handtekinn sé 24 ára gamall Sómali. Ekkert bendi til þess að fleiri hafi verið að verki en hann.

Fimm eru sagðir alvarlega særðir í frétt Reuters-fréttastofunnar. Hún fullyrðir að lögreglumenn hafi stöðvað árásarmanninn með því að skjóta hann í lærið. Hann sé ekki lífshættulega sár. Fjölmiðlar á svæðinu fullyrða að einn þeirra látnu sé ungur drengur og annað foreldri hans.

Árásarmaðurinn hefur búið í Würzburg frá 2015 en Joachim Herrmann, innanríkisráðherrra Bæjaralands, segir að yfirvöld hafi vitað af því að maðurinn ætti til að verða ofbeldishneigður. Hann hafi verið skikkaður í meðferð á geðdeild vegna þess á undanförnum dögum.

Önnur hnífaárás var gerð í Würzburg fyrir fimm árum. Þá særði sautján ára gamall pakistanskur hælisleitandi fimm manns, þar af tvo alvarlega um borð í lest.

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×