Það má eflaust deila um hvort allir leikmenn liðsins eigi sæti sitt skilið en hér að neðan má sjá þá 11 leikmenn sem UEFA telur hafa staðið sig hvað best undanfarnar vikur. Stillt er upp í hið stórskemmtilega 3-4-3 leikkerfi.
Gianluigi Donnarumma, markvörður Ítalíu, er milli stanganna en hann hefur ekki enn fengið á sig mark í keppninni. Í þriggja manna varnarlínu eru Denzel Dumfries, Aymeric Laporte og Thomas Meunier.
Dumfries hefur komið verulega á óvart í liði Hollands. Hann skoraði sigurmark Hollands í fyrstu umferð gegn Úkraínu sem og síðara mark liðsins í 2-0 sigrinum á Austurríki. Laporte hefur verið frábær í vörn Spánar og skoraði til að mynda eitt mark í 5-0 sigrinum á Slóvakíu. Meunier var svo frábær í 3-0 sigri Belga á Rússum þar sem hann skoraði og lagði upp.
Á miðjunni eru þeir Emil Forsberg, Xerdan Shaqiri, Gini Wijnaldum og Andriy Yarmolenko.
Forsberg er allt í öllu í sóknarleik Svíþjóðar og hefur skorað þrjú af fjórum mörkum liðsins. Shaqiri lagði upp mark Svisslendinga í 1-1 jafnteflinu gegn Wales og skoraði svo tvívegis í 3-1 sigrinum á Tyrklandi. Wijnaldum er kominn með þrjú mörk af miðjunni hjá Hollandi og Yarmolenko hefur komið að þremur af fjórum mörkum Úkraínu á mótinu.
Frammi eru svo þeir Memphis Depay, Cristiano Ronaldo og Patrik Schick. Memphis hefur skorað tvö og lagt upp tvö á meðan Ronaldo hefur skorað fimm og er markahæstur allra á mótinu í dag.
Schick hefur svo skorað öll mörk Tékklands á mótinu og þar á meðal markið sem verður að öllum líkindum valið mark mótsins. Nú er bara að bíða og sjá hvort þeir haldi uppteknum hætti í útsláttarkeppninni.
EM 2020 verður sýnt á Stöð 2 Sport EM 2020 sem er hluti af Sportpakkanum, Stóra pakkanum og Risapakkanum. EM 2020 er einnig hægt að kaupa stakt á lækkuðu verði frá og með 24. júní á kr. 3.990.